131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[17:25]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitthvað rifjast þessi umræða öll upp og gott ef ég minnist þess ekki að hv. þm. Pétur H. Blöndal væri hrifinn af Monte Carlo-aðferðinni.

Hvers vegna blandast Kárahnjúkar inn í þessa umræðu? Það er vegna þess að við erum að tala um skattborgara og hagsmuni skattborgara og það var hv. þm. Pétur H. Blöndal sem vakti máls á því samhengi. Staðreyndin er sú þegar litið er til Kárahnjúka að hver einasta króna sem þar hefur farið í framkvæmdir hingað til er tekin að láni og hún er á ábyrgð íslenskra skattborgara. (PHB: Nema hvað?) Nema hvað, segir hv. þingmaður. Þetta er staðreyndin. Þetta er það fjárhættuspil samkvæmt Monte Carlo-módelinu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal vill leika á kostnað íslenskra skattborgara.

En að lokum, hæstv. forseti, hér er senn að ljúka umræðu um frumvarp ríkisstjórnarinnar um almannatryggingar. Þar er komið til móts við þarfir eldri borgara. Ég tel frumvarpið vera jákvætt. Það er skref í rétta átt. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hefðum viljað ganga lengra. Við höfum lagt fram ítarleg þingmál með tillögum um það efni en þær bíða síns tíma. Ég vona að þær fái afgreiðslu í heilbrigðis- og trygginganefnd samhliða þeim tillögum sem komið hafa frá ríkisstjórninni.