131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands.

630. mál
[15:06]

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér er fyrst og fremst um tæknilega beiðni að ræða þar sem hæstv. samgönguráðherra hefur lýst sig reiðubúinn að svara með skýrslu þeirri beiðni sem var sett fram fyrir nærfellt einu og hálfu ári og ég fagna því að skýrslan sé loksins tilbúin.

Það er að vísu misskilningur hæstv. ráðherra að farið hafi verið fram á viðamikla rannsókn á málinu. Að vísu var farið fram á rannsókn á sviði almannatengsla og félagsfræði sem samgönguráðuneytið hefur kannski ekki mikið vald á, en það hafa aðrir í samfélaginu og ætti að vera auðvelt fyrir hæstv. samgönguráðherra og starfsmenn hans að afla sér þeirra hæfileika og þekkingar eða kaupa hana hjá vel kunnum stofum sem á þessu sviði starfa.

Ég fagna því að skýrslan sé loksins á leiðinni og ég fagna því líka að hæstv. samgönguráðherra skuli hafa treyst sér til að láta vinna skýrsluna fyrir minni upphæð en þær 22 millj. kr. sem Davíð Oddsson, núverandi hæstv. utanríkisráðherra, taldi að skýrslan mundi kosta í sérstöku svari sínu við fyrirspurn á Alþingi í fyrra, sem enn þá er oft vitnað til vegna þess að þetta væri þá ein dýrasta skýrsla sem flutt hefur verið á Alþingi. Ég endurtek því hrós mitt í garð hæstv. samgönguráðherra fyrir að geta svarað skýrslunni með minni kostnaði en Davíð Oddsson, hæstv. ráðherra, taldi þurfa.