131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Málefni Ríkisútvarpsins.

[15:20]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það var afar athyglisvert að hlýða hér á ungan hæstv. menntamálaráðherra fara yfir málefni nýráðins fréttastjóra á þann hátt sem hún gerði. Það liggur fyrir hvað ráðningu hins nýja fréttastjóra varðar að ófagleg sjónarmið réðu för. Ekki nokkur einustu rök hafa menn getað fundið í þessu máli sem styðja þá leið sem farin var. Menn hljóta að velta því fyrir sér í þessu ljósi að hæstv. menntamálaráðherra sem er ungur og efnilegur stjórnmálamaður stígur inn á þetta svið aðeins með eitt að leiðarljósi, þ.e. að varðveita hið hefðbundna helmingaskiptakerfi sem hér hefur ríkt og ganga þannig inn í valdakerfið. Ekki er reynt að breyta gömlum úreltum hefðum, þess í stað leggja menn lykkju á leið sína til að verja gömul helmingaskiptakerfi sem hafa því miður reynst okkur afar illa.

Ég taldi að á árinu 2005 yrðum við farin að leita að nýjum leiðum í þessum efnum og viðurkenna að við búum við allt annað samfélag í dag en við gerðum áður og það taldi ég víst að mundi endurspeglast í vinnubrögðum hæstv. menntamálaráðherra. Hún hefur hins vegar farið í sama far. Við hljótum að spyrja: Hvernig ætlar hæstv. menntamálaráðherra að bera ábyrgð á því upplausnarástandi sem nú ríkir í almannaútvarpi Íslendinga? Ætlar hún að vera sá menntamálaráðherra sem átti stærstan þátt í að grafa undan trausti Ríkisútvarpsins? Er það sá minnisvarði sem hæstv. ráðherra ætlar að reisa sjálfri sér eða ætlar hún að einhverju leyti að bera pólitíska ábyrgð? Á endanum ber hæstv. menntamálaráðherra pólitíska ábyrgð á því ástandi sem nú er við lýði í Ríkisútvarpinu, (Forseti hringir.) útvarpi sem allir landsmenn bera mikið traust til og (Forseti hringir.) margoft hefur komið fram í skoðanakönnunum.