131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Málefni Ríkisútvarpsins.

[15:22]

Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Grundvallaratriði sem þarf að svara á hv. Alþingi er þetta: Hafa einhver lög verið brotin? (Gripið fram í.) Ég hef engan heyrt segja það, engan, enda er ekki svo. Staða fréttastjóra var auglýst eins og lög mæla fyrir. Nokkrir umsækjendur sendu inn umsókn og eins og lög mæla fyrir sendu nokkrir umsagnaraðilar umsagnir sínar til útvarpsstjóra. (Gripið fram í.) Yfirmaður fréttasviðs, Bogi Ágústsson, gerir það, leggur sitt persónulega mat á og leggur fyrir útvarpsstjóra eins og lög gera ráð fyrir. Hið sama gerir útvarpsráð, eins og lög gera ráð fyrir, nema að þessu sinni kusu fulltrúar Samfylkingarinnar að taka ekki þátt í því og segjast ekki eiga að taka þátt í mannaráðningum sem þeir hafa þó ítrekað gert, þessir sömu aðilar, í störfum sínum hjá útvarpsráði. Meiri hluti útvarpsráðs leggur mat sitt fyrir útvarpsstjóra, eins og lög mæla fyrir um. (Gripið fram í: … lögfræði …) Hið sama gildir um starfsmannastjóra útvarpsins sem leggur sitt mat fyrir útvarpsstjóra og hið sama gerir ráðningarfyrirtæki sem tók alla umsækjendur í ýmiss konar próf og lagði þær niðurstöður fyrir útvarpsstjóra. (Gripið fram í.)

Herra forseti. Þessar upplýsingar allar hefur útvarpsstjóri eins og lög gera ráð fyrir. Á þeim grundvelli tekur útvarpsstjóri ákvörðun sína eins og lög gera ráð fyrir. (Gripið fram í.)

Ef einhver efast um það, að gefnu tilefni, skal það upplýst hér, virðulegi forseti, að útvarpsstjóri Markús Örn Antonsson er eftir bestu vitund minni ekki í dag og hefur aldrei verið skráður í Framsóknarflokkinn (Gripið fram í.) svo að það sé á hreinu.