131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Málefni Ríkisútvarpsins.

[15:24]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er mikil ólga í samfélaginu vegna ráðningar fréttastjóra á fréttastofu útvarpsins. Fagleg rök hafa verið hundsuð og ekki valið úr hópi þeirra fimm umsækjenda sem forstöðumaður fréttasviðs mælti með eftir faglegt samráð við starfsmannastjóra og ráðgjafa.

Í öllum atvinnugreinum er lögð megináhersla á menntun, reynslu og þekkingu starfsfólksins. Miklu meiri starfsreynsla og þekking á fréttavettvangi var í þessu tilfelli hundsuð. „Okkar fólk í fyrirrúmi“ — svona er framkvæmdin hjá ríkisstjórnarflokkunum, jafnt í stórum sem smáum embættisveitingum. Venja stjórnarflokkanna í embættisveitingum er niðurlægjandi fyrir starfsfólk Ríkisútvarpsins. Það ber að hafna þessari pólitísku aðför að hlutleysi þess. Verklag stjórnarflokkanna er spillt og gengur gegn lýðræði. Þessi pólitíska stýring vanvirðir starfsreynslu fréttamanna og faglegt mat á störfum þeirra. Ákvörðunina á að endurskoða. Það ber útvarpsstjóra að gera strax.

Stjórnvöld hafa oft orðið ber að flokkspólitískum ráðningum í áhrifastöður sem gætu gagnast í pólitískum áróðri og skoðanamyndun. Sjálfstæðis- og framsóknarmönnum finnst þetta eðlileg vinnubrögð. Hér á Alþingi var því mótmælt í síðustu viku að stjórnarflokkarnir misnotuðu það vald sem þeir hafa farið með í Ríkisútvarpinu í krafti úreltra stjórnarhátta. Starfsmenn vantreysta útvarpsstjóra, útvarpsráði og stjórnarflokkunum. Ríkisútvarpið er í uppnámi.

Við í Frjálslynda flokknum höfum nokkrum sinnum lagt fram á Alþingi þingsályktun um breytt fyrirkomulag á rekstri Ríkisútvarpsins og breytt útvarpsráð. Það er óhætt að segja að sporin hræði í þeirri stefnu sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa iðulega lýst að þeir vilji fara, þ.e. að einkavæða Ríkisútvarpið, taka upp hlutafélagaformið.

Lýðræðisþróuninni í landinu er hætta búin þegar frjálsræði Ríkisútvarpsins verður afnumið.