131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

137. mál
[15:45]

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Það gerir í stuttu máli ráð fyrir því að opinber birting og framlagning álagningar- og skattskráa landsmanna verði lögð af eins og gert er ráð fyrir í núgildandi lögum, einkum í 98. gr. laganna um tekjuskatt og eignarskatt, að sé lögmæt og að fyrirkomulagið sé með þeim hætti. Ásamt mér flytja þetta frumvarp hv. þm. Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Birgisson, Guðjón Hjörleifsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Sólveig Pétursdóttir, Pétur H. Blöndal, Drífa Hjartardóttir og Guðjón Guðmundsson.

Eins og áður segir gerir þetta frumvarp ráð fyrir því að opinber birting og framlagning á álagningar- og skattskrám landsmanna þar sem fram koma upplýsingar um skattgreiðslur einstaklinganna verði lögð af. Ákvæði um birtingu slíkra skráa er að finna í 98. gr. núgildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Þegar skattstjórar hafa lokið álagningu á skattaðila skulu þeir semja og leggja fram til sýnis eigi síðar en 15 dögum fyrir lok kærufrests skv. 99. gr. álagningarskrá fyrir hvert sveitarfélag í umdæminu, en í henni skal tilgreina þá skatta sem á hvern gjaldanda hafa verið lagðir samkvæmt lögum þessum.“

Í 2. mgr. 98. gr. núgildandi laga segir:

„Þegar lokið er álagningu skatta og kærumeðferð, sbr. 99. gr., skulu skattstjórar semja og leggja fram skattskrá fyrir hvert sveitarfélag í umdæminu en í henni skal tilgreina álagðan tekjuskatt og eignarskatt hvers gjaldanda og aðra skatta eftir ákvörðun ríkisskattstjóra. Skattskrá skal liggja frammi til sýnis í tvær vikur á hentugum stað í hverju sveitarfélagi. Skattstjóri eða umboðsmaður hans auglýsir í tæka tíð hvar skattskrá liggur frammi. Heimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta, sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta.“

Eins og sjá má af þessum ákvæðum er sú skylda lögð á skattyfirvöld að leggja þessar tilteknu upplýsingar fram og gerir frumvarpið ráð fyrir því að sú skylda verði lögð af.

Herra forseti. Áður en ég kem að þeim helstu röksemdum sem liggja að baki frumvarpinu langar mig að fara aðeins yfir forsögu þess að álagningar- og skattskrár eru birtar samkvæmt núgildandi lögum. Réttarsagan í þessu máli segir okkur ýmislegt um grundvöll birtingarinnar. Það er nefnilega þannig að skattyfirvöldum hefur um áratuga skeið verið skylt að lögum að leggja skattskrár einstaklinga fram til birtingar og að auglýsa framlagningu þeirra sérstaklega. Af orðalagi eldri laga um tekjuskatt og eignarskatt er ljóst að tilgangurinn með framlagningu skattskráa hefur verið sá að upplýsa gjaldendur um álagðan skatt á tekjur og eignir hvers og eins en jafnframt að tryggja gjaldendum heimild til að fá upplýst hjá skattyfirvöldum um grundvöll viðmiðunar tekna og eigna til myndunar skattstofns og kæruheimildir vegna slíkra ákvarðana. Enn fremur tryggðu ákvæði eldri laga sérhverjum gjaldanda kæruheimild vegna ákvörðunar skattyfirvalda um skattstofn þriðja manns til tekjuskatts og eignarskatts, þ.e. eldri lög tryggðu einstaklingum heimild til að kæra framtal nágranna síns. Með öðrum orðum var því tilgangur laganna í öndverðu sá að gefa almenningi tækifæri til að kynna sér álagningu á samborgara sína enda var slíkt talið nauðsynlegt til að tryggja að mögulegt væri að ganga úr skugga um að allir skattborgarar landsins greiddu þá skatta sem þeim bæri í samræmi við greiðslugetu og að skattálagning annarra gengi ekki gegn hagsmunum almennings. Voru almenningi því heimilaðar svokallaðar samanburðarkærur ef grunsemdir voru um að tekjur og eignir tiltekinna einstaklinga væru of lágt taldar eða eftir atvikum ótaldar fram.

Þessi regla kom m.a. fram í 35. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 74/1921. Í 36. gr. þeirra laga var að finna kæruheimild sem gerði ráð fyrir því að viðkomandi aðili, borgarinn, gæti kært samborgara sinn ef hann teldi að sá hinn sami teldi fram of litlar eignir og lágar tekjur eða gerði það yfir höfuð ekki. Í þessu ákvæði laganna um tekjuskatt og eignarskatt frá 1921 segir m.a.:

„Ef einhver er óánægður með ákvörðun skattanefndar um tekjur hans og eign, skal hann bera upp kæru sína brjeflega fyrir formanni skattanefndar fyrir 15. dag aprílmánaðar. Innan sama tíma er hverjum gjaldanda heimilt að kæra yfir því, að skattskyldum manni sje slept eða tekjur og eign einhvers sje of lágt ákveðin, svo og að bera upp aðfinningar um hvert það atriði í skattskránni, sem að einhverju leyti getur snert hagsmuni hans.“

Sambærilegt ákvæði gömlu laganna um tekjuskatt og eignarskatt frá 1921 var síðan að finna í 36. og 37. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt frá 1935 og einnig í slíkum lögum frá 1954.

Með setningu laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 70/1962 var gerð veigamikil breyting á þessum fyrrgreindu ákvæðum sem ég hef hér farið yfir. Samkvæmt ákvæðum 39. og 40. gr. þeirra laga var skattstjórum eftir sem áður gert að leggja skattskrár fram í umdæmum sínum. Hins vegar var felld niður sú kæruheimild sem gjaldendur höfðu vegna ákvörðunar skatta á tekjur og eignir þriðja manns. Í greinargerð með frumvarpi til laga um tekjuskatt og eignarskatt sem varð að lögum nr. 70/1962 kemur fram rökstuðningur fyrir breytingunni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fellt er niður ákvæði 2. málsl. 38. gr. núgildandi laga um heimild gjaldenda til þess að kæra út af því, að tekjur og eign annarra gjaldenda sé of lágt ákveðin o.s.frv. Þessu ákvæði mun sjaldan eða aldrei hafa verið beitt, og verður því að teljast óþarft. Auðvitað getur hver gjaldþegn eftir sem áður komið á framfæri við skattstjóra eða umboðsmann hans hverjum þeim upplýsingum og ábendingum, sem hann telur ástæðu til.“

Fram til ársins 1979 lögðu skattyfirvöld einungis fram skattskrár, meðal annars samkvæmt þeim ákvæðum sem ég vék að áðan. Fram að þeim tíma var ekki gerður lagalegur munur á skattskrám annars vegar og álagningarskrám hins vegar. Með setningu laga um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981 var gerður slíkur greinarmunur og skattstjórum gert skylt að leggja bæði álagningar- og skattskrár fram árlega, samkvæmt ákvæðum 98. gr. laganna. Með 8. gr. laga nr. 7/1984 var opinber birting og útgáfa álagningar- og skattskráa síðan heimiluð og hefur verið það síðan. Í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem fylgdi lagabreytingunni árið 1984 kom fram það álit meiri hluta nefndarinnar að ótvírætt væri að birting upplýsinga úr skattskrá og útgáfa hennar væri í heild til þess fallin að skapa bæði gjaldendum og skattyfirvöldum virkt aðhald og að slík birting gegndi að mörgu leyti sama tilgangi og framlagning skattskráa. Framlagning álagningar- og skattskráa væri þannig hugsuð sem þáttur í virku skatteftirliti og ætlað að koma í veg fyrir undanskot frá skatti.

Frá því að síðastnefndu breytingarnar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt voru gerðar hefur framkvæmd laganna verið sú að skattstjórar hafa árlega lagt fram álagningar- og skattskrár í hverju umdæmi og jafnframt hafa efni þeirra verið gerð ítarleg skil í fjölmiðlum. Með frumvarpi þessu sem ég mæli hér fyrir er lagt til að breyting verði gerð þar á.

Áður en lengra er haldið, herra forseti, er rétt að víkja að því hvernig sambærilegri löggjöf er hagað á Norðurlöndum. Reglur um birtingu upplýsinga um skattgreiðslur einstaklinga eru þar ekki samræmdar. Ákvæði norskra laga munu vera sambærileg núgildandi ákvæðum íslenskra laga um tekjuskatt og eignarskatt hvað varðar birtingu upplýsinga úr skattskrám. Hins vegar hef ég fyrir fram mig útprentun af frétt sem birtist í Morgunblaðinu 26. október 2003 þar sem fram kemur — þetta er eftirskrift af frétt sem birtist í Aftonbladet — að Norðmenn hyggist leggja fram frumvarp á norska þinginu sem takmarkar þann aðgang sem a.m.k. þá var veittur að skattskrám einstaklinga. Það er ekki síst af fréttinni að dæma að breytingin stafi af því að skattskrár á netinu voru, a.m.k. þá, taldar auka einelti, þar á meðal gagnvart börnum. Margir höfðu haft samband við umboðsmann barna og norska fjármálaráðuneytið og sagt frá því að þessar upplýsingar úr skattskrám væru gjarnan notaðar sem eins konar skemmti- og stríðnisefni gagnvart ungum, norskum börnum. Þetta var útúrdúr.

Samkvæmt sænskum lögum hafa þarlend skattyfirvöld haft víðtækar heimildir til að birta upplýsingar um skattgreiðslur einstaklinga. Í dönskum lögum er hins vegar kveðið á um algjöra leynd um skattgreiðslur einstaklinga.

Ég vil taka það fram áður en lengra er haldið að eftir því sem ég best veit verður ekki séð og ekki hefur verið sýnt fram á að skattsvik séu umfangsmeiri í þeim löndum þar sem skattskrár eru ekki birtar en í þeim löndum þar sem þær eru birtar. Mér er ekki kunnugt um það og hef ekki séð neinar tölur þess efnis að skattsvik í Danmörku séu umfangsmeiri en í Noregi og Svíþjóð þrátt fyrir að reglur um birtingu þessara upplýsinga séu ekki samræmdar og gangi í rauninni hver gegn annarri eftir því hvaða land á í hlut.

Herra forseti. Ef við víkjum þá aftur að núgildandi löggjöf eins og hún er á Íslandi er ljóst að nefna má ýmsa annmarka á henni hvað varðar álagningar- og skattskrár einstaklinga. Tölvutæknin gerir það að verkum að álagningar- og skattskrár eru unnar á tölvutæku formi. Með afhendingu skránna kunna að rísa fjölmörg álitamál. Þannig má nefna að með samtengingu slíkra skráa við aðrar skrár er hægt að kalla fram nákvæmar persónuupplýsingar um alla landsmenn. Slíkar upplýsingar má náttúrlega nota í ýmsu skyni og sú hætta er fyrir hendi að þær kunni að verða notaðar í annarlegum tilgangi eins og reynslan hefur sýnt okkur frá Noregi þar sem börn hafa orðið fyrir einelti og menn þurft að leita til norska fjármálaráðuneytisins og umboðsmanns barna vegna tekna foreldra þeirra sem hafa verið gerðar opinberar.

Núgildandi löggjöf leysir þennan vanda ekki að öllu leyti. Samkvæmt lögum ber að leggja álagningarskrár fram síðsumars en endanleg skattskrá er ekki lögð fram fyrr en í janúarmánuði. Ólík ákvæði gilda reyndar um birtingu skránna. Þannig er ótvírætt tekið fram að skattskrá megi birta og gefa út í heild eða að hluta. Um álagningarskrána segir einvörðungu að hún skuli liggja frammi til sýnis í tiltekinn tíma. Ekki er hins vegar kveðið á um í núgildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt hvort afhenda megi skrárnar á tölvutæku formi eða hvort vinna megi úr þeim líkt og tíðkast í fjölmiðlum þó að vera kunni að lög um meðferð persónuupplýsinga kunni að setja slíkri meðferð einhverjar skorður.

Herra forseti. Ég vík þá að helstu rökum fyrir frumvarpinu og þeirri breytingu sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Eins og áður segir, og ég hef farið yfir, er ljóst að tilgangurinn með því að skylda skattyfirvöld að lögum til að leggja fram skattskrár einstaklinga var í fyrsta lagi sá að upplýsa gjaldendur um álagðan skatt á tekjur og eignir hvers og eins og grundvöll viðmiðunar tekna og eigna til myndunar skattstofns og kæruheimild vegna slíkra ákvarðana. Í öðru lagi var tilgangurinn sá að tryggja almenningi kæruheimild vegna ákvörðunar skattyfirvalda um skattstofn þriðja manns til tekjuskatts og eignarskatts. Af orðalagi eldri lagaákvæða má ljóst vera að forsenda þess að gjaldendur gætu neytt kæruheimildar sinnar gagnvart þriðja manni var sú að skattskrárnar lægju frammi. Að öðrum kosti hefði almenningi verið ómögulegt að beita kæruheimild sinni. Menn sjá það í hendi sér. Það er alveg ljóst að menn hefðu ekki getað kært nágranna sinn fyrir að svíkja undan skatti nema þeir vissu hvaða tekjur og eignir viðkomandi hefði talið fram. Þegar lögfest var breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt með lögunum frá 1962, sem ég vék að áðan, var þessi kæruheimild gjaldenda vegna skattákvörðunar þriðja manns felld niður. Með því að fella hana niður brustu náttúrlega þær forsendur sem lágu að baki framlagningu skattskráa einstaklinga. Tilgangurinn með því að leggja skattskrárnar fram var ekki sá númer eitt, tvö og þrjú að upplýsa menn um hvaða tekjur allir einstaklingar hefðu, heldur sá að veita þeim kæruheimild og rétt til að beita henni við tilteknar aðstæður.

Samkvæmt núgildandi ákvæðum 98. gr. laga nr. 90/2003 hvílir á skattstjórum sú skylda að senda hverjum gjaldanda sérstaka tilkynningu eða álagningarseðla með upplýsingum um þá skatta sem á hann hafa verið lagðir á viðkomandi skattári. Í slíkum tilkynningum koma fram sömu upplýsingar og birtar eru í framlögðum álagningar- og skattskrám. Frumvarp þetta gerir ekki ráð fyrir að breyting verði gerð á þeirri framkvæmd. Í ljósi hennar verður hins vegar ekki séð að framlagning álagningar- og skattskráa samkvæmt núgildandi löggjöf feli í sér annan tilgang en að gefa almenningi kost á að kynna sér fjárhagsleg málefni náungans.

Veigamestu rökin að baki frumvarpinu eru þau, herra forseti, að telja verði að birting álagningar- og skattskráa samkvæmt ákvæðum núgildandi laga brjóti gegn rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs. Fjárhagsmálefni einstaklinga eru meðal viðkvæmustu persónuupplýsinga í nútímasamfélagi sem flutningsmenn telja eðlilegt og sanngjarnt að fari leynt. Ljóst má vera að með framlagningu álagningar- og skattskráa fer fram birting á upplýsingum sem gefa glögga mynd af tekjum nafngreindra einstaklinga. Færa má rök fyrir því að notkun upplýsinganna hafi breyst verulega frá því að tryggja kærurétt gjaldenda gagnvart samborgurum sínum til þess að vera orðnar að þaulskipulagðri markaðsvöru. Í framkvæmd hefur þróunin orðið sú á síðustu árum að framlagning álagningar- og skattskráa hefur orðið uppspretta frétta um fjárhagsleg málefni einstaklinga. Það er orðinn árlegur viðburður að fjölmiðlar vinni upplýsingar upp úr álagningar- og skattskrám um tekjur manna. Birtir eru listar yfir tekjuhæstu einstaklingana í hverri starfsgrein, gjarnan með samanburði frá ári til árs. Leiða má líkur að því, virðulegi forseti, að fjölmiðlaumræða af slíku tagi feli í sér hættu á að einstaklingar verði fyrir óverðskuldaðri áreitni vegna tekna sinna, ýmist vegna þess að þær þyki of háar eða of lágar.

Framlagning þessara skráa getur haft fleiri ókosti í för með sér. Birting upplýsinga um tekjur einstaklinga er til þess fallin að grafa undan því trúnaðarsambandi sem viðgengist hefur á vinnumarkaði um launakjör í frjálsum vinnusamningum. Á flestum vinnustöðum eru launakjör starfsmanna trúnaðarmál launþega og vinnuveitanda. Með því að skylda skattstjóra til að leggja álagningar- og skattskrár fram gerir ríkisvaldið þennan trúnað að engu.

Allt frá því að lögfest voru lagaákvæði um framlagningu álagningar- og skattskráa fyrir áratugum síðan hafa gríðarlegar umbætur átt sér stað hvað varðar réttarstöðu einstaklinga gagnvart ríkisvaldinu. Og ekki verður annað sagt — og ég hygg að mönnum í hvaða stjórnmálaflokki sem er hvort sem þeir eru stjórnarliðar eða teljast til stjórnarandstöðu sé það alveg ljóst — en að réttur einstaklinga til friðhelgi einkalífs hafi verið bættur verulega á síðustu árum og áratugum. Í því sambandi má nefna setningu laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, lög um skráningu og meðferð persónupplýsinga, stjórnsýslulög og upplýsingalög. Þá hefur í íslenskri löggjöf verið lögð aukin áhersla á vernd mannréttinda, meðal annars með lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu og með endurskoðun á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar 1995 og 1997. Á sama tíma hefur réttarvitund almennings tekið breytingum og ætla má að almennir borgarar geri sér betur grein fyrir réttindum sínum en áður og þeim takmörkunum sem ríkisvaldinu eru sett gagnvart þeim, þar á meðal hvað varðar meðferð ríkisvaldsins og annarra aðila á viðkvæmum persónuupplýsingum. Nægir þar að nefna þær umræður sem sköpuðust á hinu háa Alþingi um meðferð heilsufarsupplýsinga einstaklinga í aðdraganda setningar laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði.

Víða í íslenskri löggjöf er réttur einstaklinga til friðhelgi einkalífs tryggður og hömlur settar við meðferð, birtingu eða opinberun á viðkvæmum persónuupplýsingum einstaklinga. Í því sambandi má nefna 71. gr. stjórnarskrárinnar þar sem friðhelgi einkalífs einstaklinga er vernduð. Sambærilega reglu er að finna í 8. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu. Einnig má nefna að í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er kveðið á um friðhelgi einkalífs en skv. 1. gr. laganna er þeim meðal annars ætlað að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs.

Þá er víða í löggjöfinni, og það er dálítið athyglisvert, kveðið á um þagnarskyldu starfsmanna um einkahagi einstaklinga, svo sem um fjárhagsmálefni þeirra. Þannig er skattstjórum, umboðsmönnum skattstjóra, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins og yfirskattanefnd bannað, að viðlagðri ábyrgð eftir ákvæðum almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi, að skýra óviðkomandi mönnum frá því sem þeir komast að í sýslan sinni um tekjur og efnahag skattaðila. Hið sama gildir um þá sem veita áðurnefndum aðilum aðstoð við starf þeirra eða á annan hátt fjalla um skattframtöl. Það er dálítið sérstakt að þessum starfsmönnum sé bannað að viðlagðri ábyrgð samkvæmt almennum hegningarlögum að tjá sig opinberlega um þessar upplýsingar.

Í 22. gr. lögreglulaga er lögð þagnarskylda á lögreglumenn og annað starfslið lögreglu um atvik sem þeim verða kunn í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt eiga að fara. Þar er m.a. tekið fram að þagnarskyldan nái til upplýsinga um einkahagi manna sem eðlilegt er að leynt fari.

Í lögum um fjármálafyrirtæki er ákvæði um bankaleynd fjármálafyrirtækja. Þar er mælt fyrir um að stjórnarmenn fjármálafyrirtækja, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu slíkra fyrirtækja séu bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa sinna og varða viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þeirra, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þá má nefna að í fleiri lögum svo sem í lögum um endurskoðun og í lögum um lögmenn er lögð rík þagnarskylda á hendur þeim starfsstéttum vegna þeirra upplýsinga sem þeir fá í tengslum við störf sín og varða þessi atriði, þar á meðal fjárhagsleg málefni einstaklinga.

Í ljósi allra þessara lagaákvæða og gildandi réttar verður að telja að ákvæði núgildandi 98. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, um framlagningu álagningar- og skattskráa séu í verulegu ósamræmi við þessi ákvæði og þær meginreglur sem lögfestar hafa verið í sérlögum um þagnarskyldu um upplýsingar sem varða fjárhagsleg málefni einstaklinga. Auk þess verður að telja að slík framlagning brjóti í bága við þær meginreglur sem 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs byggja á. Þessi framlagning er ekki í nokkru samræmi við þau meginsjónarmið sem þessi ákvæði fjalla um.

Flutningsmenn frumvarps þessa telja að gildar ástæður þurfi að liggja til grundvallar löggjöf sem mælir fyrir um svo yfirgripsmikla röskun á friðhelgi einkalífs einstaklinga sem núgildandi löggjöf kveður á um. Með vísan til þess sem ég hef hér rakið verður ekki annað séð en að slíkar ástæður séu fyrir hendi og því nauðsynlegt að gera þær breytingar sem hér er mælt fyrir um og frumvarpið gerir ráð fyrir.

Að lokum er rétt að geta þess, herra forseti, og það er mjög mikilvægt að það komi skýrt fram, að frumvarp þetta felur það ekki í sér að neinu leyti að dregið verði úr þeim úrræðum sem skattyfirvöldum er veitt í núgildandi löggjöf til að sinna virku skatteftirliti, bregðast við undanskotum frá skatti eða til að beita öðrum þeim heimildum sem núgildandi löggjöf kveður á um. Alls ekki. Það er ekkert í frumvarpinu sem gerir ráð fyrir því að vígtennurnar verði dregnar úr skattyfirvöldum sem eiga að hafa eftirlit með því að menn greiði skatta sína, enda hygg ég að allir flutningsmenn þessa frumvarps séu þeirrar skoðunar að mönnum beri að greiða þá skatta sem þeim ber. Það kann síðan að vera að menn séu ósammála um hvernig skattheimtunni er háttað. Við flutningsmenn erum engu að síður þeirrar skoðunar að ef við höfum skattareglur beri mönnum að fara að þeim. Gerir frumvarpið því ráð fyrir að núverandi eftirlit verði eftir sem áður í höndum skattyfirvalda. Verði frumvarpið að lögum lýkur einkaskattrannsóknum borgaranna hver á öðrum. Það sem manni finnst dálítið ógeðfellt og ósmekklegt við núverandi kerfi er að það elur á öfund og eftirliti borgaranna hver gagnvart öðrum. Slíkar persónunjósnir og persónurannsóknir einstaklinga eru okkur ekki að skapi. Við teljum nægilegt að fela skattyfirvöldum skatteftirlitið og það eftirlit eigi að vera í höndum þeirra en ekki einstaklinga.

Við leggjum því til að 98. gr. um tekjuskatt og eignarskatt verði breytt þannig að opinber birting álagningar- og skattskráa landsmanna verði lögð af. Verði frumvarpið að lögum verður einungis lögð sú skylda á skattstjóra landsins að senda hverjum skattaðila tilkynningu um þá skatta sem á hann hafa verið lagðir þegar skattstjórar hafa lokið álagningu á skattaðila. Jafnframt verði lögð sú skylda á skattstjóra að auglýsa rækilega, m.a. í Lögbirtingablaðinu, að álagningu sé lokið. Verður skattstjórum síðan gert skylt að senda viðkomandi innheimtumanni ríkissjóðs skrá um þá aðila sem á hafa verið lagðir skattar, svo og samrit til ríkisskattstjóra og ríkisendurskoðanda, en þeim verður ekki gert skylt og verður í raun óheimilt að leggja skattskrárnar fram til sýningar eins og verið hefur a.m.k. frá árinu 1921, eins og ég hef hér rakið.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og meðferðar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.