131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

137. mál
[16:28]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég legg sannast sagna ekki að jöfnu styrki eða stuðning sem sjúkt fólk fær vegna sjúkdóma sinna og tekna sem fullfrískt fólk aflar sér með vinnu sinni eða hefur sem arð af fjármagni eða eignum, ég legg þetta alls ekki að jöfnu. Að tala um upplýsingar af því tagi sem viðkvæmar persónulegar upplýsingar eða viðkvæm persónuleg málefni minnir mig svolítið á viðtal sem birtist við bankastjóra Landsbankans þegar Landsbankinn var að færa út kvíarnar á Ermarsundi í einni af skattaparadísunum þar. Þá sagði hann í viðtali við Morgunblaðið, mér er þetta minnisstætt, að skiljanlegt væri að stóreignafólk vildi hafa sum sinna stærri mála utan kastljósa fjölmiðla og almennrar umræðu. Það er þetta sem ég er að ræða um.

Ég er líka að ræða um þá einstaklinga sem hafa hagnast gríðarlega mikið í íslensku samfélagi á undanförnum árum en vilja fara með þetta í felur. Auk þess hafa margir orðið uppvísir að því að skjóta eignum og tekjum sínum undan skatti. Þarna hefur komið mikið aðhald frá samfélaginu vegna þess að það er opið, vegna þess að almenningi eru upplýsingarnar aðgengilegar hafi aðilarnir verið að heykjast á því að fara sínu fram. Þetta eru bara staðreyndir. Gagnstætt því að reyna að loka samfélaginu og draga fyrir alla glugga vil ég skora á sjálfstæðismenn að stuðla að opnu og upplýstu samfélagi. Eða hvað hafa menn annars að fela? Hvers vegna er það svo persónulega viðkvæmt að birta upplýsingar um tekjur manna?