131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

137. mál
[16:31]

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég svari síðustu spurningunni, þá kemur hv. þm. Ögmundi Jónassyni og mér bara ekkert við hvað almennur borgari út í bæ hefur í laun. Það kemur okkur tveimur ekkert við. Við höfum engan rétt á því að vera að grafast fyrir um það í einhverjum skattskrám hvað náunginn í sama stigahúsi og við er með í laun.

Hv. þingmaður leggur ekki að jöfnu styrki og bætur sem menn fá greidda úr ríkissjóði, en ég tel að ef menn ætla að vera samkvæmir sjálfum sér og eru almennt þeirrar skoðunar að leggja eigi á borð allar upplýsingar um fjárhag sem og málefni einstaklinga eigi ekki að einskorða það við tekjur eða venjuleg vinnulaun, heldur hljótum við að taka aðrar greiðslur til þeirra inn í dæmið ef menn ætla að vera samkvæmir sjálfum sér, þar á meðal greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Ég mundi telja að það væri mjög athyglisvert að fá upplýsingar um það hvernig þeim er háttað. Mér finnst það hins vegar frekar ógeðfellt.

Ég vil benda hv. þm. Ögmundi Jónassyni á að þær upplýsingar sem við tölum um koma sér held ég miklu verr fyrir þá sem eru tekjulágir en þá sem eru tekjuháir. Ég veit ekki betur en tekjuhæstu einstaklingarnir á Íslandi síðustu áratugi hafi verið stoltir af þeim sköttum sem þeir hafa greitt, samanber yfirlýsingar Björgólfs Guðmundssonar í blöðunum, svo ég tali ekki um Þorvald í Síld og fisk í gamla daga.

Eins og ég benti á áðan í ræðu minni er það þannig í Noregi og birtist um það grein þann 26. október 2003 þar sem segir að mörg börn og foreldrar barna hafi þurft að leita til umboðsmanns barna og fjármálaráðuneytisins vegna þessara upplýsinga. Ekki vegna þess að börnin hafi skammast sín vegna hárra skatttekna foreldra sinna, heldur lágra.