131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

137. mál
[16:33]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir ágæta yfirferð yfir málið en vil samt bæta nokkru við.

Eins og hann gat réttilega um var skatteftirlit og skattrannsóknir mjög fátæklegar í öndverðu og ekki til stofnanir í þjóðfélaginu til að reka þau erindi. Þá var lausn löggjafans fólgin í því að láta hinn almenna borgara stunda skattrannsóknir og skatteftirlit með öðrum borgurum. Frekar ógeðfelld aðferð en hún var nothæf á þeim tíma í staðinn fyrir að stofnanir sinntu þessu. Síðan höfum við tekið upp stofnanir sem gera það að verkum að borgarinn þarf ekki lengur og gerir ekki lengur skattrannsóknir eða hefur eftirlit með samborgurum sínum. Þess vegna er frumvarpið lagt fram því að ákvæðið er löngu orðið úrelt.

Ákvæðið hefur engan annan tilgang í dag en að leyfa fólki að hnýsast í eignir og tekjur meðborgaranna, sá fræjum öfundar og óvildar í þjóðfélaginu. Það brýtur auk þess persónuvernd og þá vernd sem fólk þarf fyrir vinum sínum, ættingjum og börnum sem ekki kunna að fara eins vel með peninga og skattborgarinn og mundu ásælast eignir foreldra sinna eða frænda ef þau vissu að þær væru til. Og líka til að vernda fólk fyrir viðskiptavinum sínum. Það er alveg óþarfi að þeir viti hvort menn eigi miklar eignir eða litlar og hvort þær hafi aukist eða minnkað. Auk þess byggir skattskráin eins og hún er lögð fram að einhverju leyti á áætlunum skattstjóra fyrir þá aðila sem ekki hafa talið fram og er þar af leiðandi mjög röng hvað þá varðar og allt of há yfirleitt.

Svo er náttúrlega hinn sígildi brandari á hverju hausti, frú forseti, sem maður nær ekki, að einhverjar upplýsingar megi hafa gildi í þrjár vikur og megi vera á prenti í þrjár vikur, en ekki eftir það. Ég hefði gaman af því að vita hvort Frjáls verslun fáist á bókasöfnum og hvort skoða megi hana á Landsbókasafninu þar sem er skylda að afhenda hvert einasta prentað rit. Það er dálítið merkileg mótsögn sem kemur þar í ljós, að skila verði inn gögnum og Landsbókasafnið eigi að hafa öll tímarit og dagblöð, en það megi ekki sýna það. Þetta er náttúrlega mjög skrýtið ákvæði og gefur tilefni til mikilla brandara.

Menn hafa talað um vinnukonuútsvar og rétt er að margir aðilar telja fram svo lágar tekjur að mönnum finnst það vera mjög lítið. En er það ekki hlutverk skattrannsóknarstjóra að fara í gegnum það hverjir eru með vinnukonuútsvar í staðinn fyrir að básúna það í fjölmiðlum að þessi og hinn sé með vinnukonuútsvar án þess að geta kynnt sér málið? Er það ekki skattrannsóknarstjóri sem hefur samband við viðkomandi aðila og segir: „Heyrðu, ertu ekki með hærri tekjur?“ Ég mundi telja það. Sá vandi er því að sjálfsögðu leystur í dag. Þó fjölmiðlar og einstaklingar býsnist yfir lágum tekjum einhverra meðborgara sinna gera þeir ekkert með málið. Það er skattrannsóknarstjóri sem getur gert eitthvað í málinu.

Ef maður lítur á fjárhagsleg samskipti borgaranna við ríkið eru menn annars vegar að borga skatta sem þeir innheimta fyrir ríkið og skatta sem þeir borga af eigin tekjum og eigin eignum, þ.e. hluta af eignum og tekjum sem ríkið ásælist frá borgaranum. Hins vegar taka menn bætur frá ríkinu, taka bætur úr hinum sameiginlega sjóði allra landsmanna og ég verð að segja eins og er að mér finnst skipta meira máli að upplýst sé um það sem menn fá úr kassanum, hinum sameiginlega sjóði, en það sem þeir eru neyddir til að borga af eigin tekjum og eignum til ríkisins. Mér finnst það skipta meira máli. Ef þær eru sanngjarnar og eðlilegar er allt í lagi að birta þær. Ég sé því ekkert að því að birta bótaskrá og ætti frekar að birta hana en skattskrána.

Ég legg til, frú forseti, að menn hugleiði hvort ekki megi birta skrá yfir allar bætur í landinu, því að sjálfsögðu eru þær allar réttmætar og skiljanlegar og allir hafa skilning á því að þær séu svona og svona háar, hvort sem það eru fæðingarorlofsbætur, örorkubætur, bætur vegna barna o.s.frv.

Áðan var rætt um upplýsingaþjóðfélag, lokað þjóðfélag o.s.frv. og að undarlegt væri að ungir sjálfstæðismenn, ég er reyndar á listanum líka og er mér heiður að teljast í hópi þeirra, væru að berjast fyrir því að loka á upplýsingar. Ég tel að veita eigi upplýsingar sem skipta aðila máli eins og t.d. hluthafa, á hluthafafundum. Upplýsa á um málefni sem skiptir annað fólk einhverju máli. Það á ekki að upplýsa bara til að upplýsa, það finnst mér ástæðulaust. Allar tölfræðilegar upplýsingar sem til eru um tekjudreifingu og allt slíkt heldur að sjálfsögðu allt áfram, en ekki undir nafni. Upplýsingar til skattstjóra og annað slíkt er óbreytt. Það verður því engin skerðing á skatteftirliti eða skattrannsóknum.

Frú forseti. Við erum búin að fella niður eignarskattinn, og ég þarf alltaf að segja það aftur og aftur svo ég trúi því, en ef okkur auðnaðist að taka upp flatan tekjuskatt, segjum einhverja fasta prósentu, t.d. 22%, af öllum tekjum í útsvar og tekjuskatt gætum við fellt niður framtalið.

Íslendingar horfa fram á næstu helgi og þarnæstu helgi með ótta í augum og kvíða. Við gætum sleppt því að búa til þennan kvíða á þessum árstíma, á hverju einasta ári fer einn dagur á ári í þá vitleysu að telja fram til skatts, ef okkur bæri gæfa til að fella niður eignarskattinn og taka upp flatan tekjuskatt og taka upp staðgreiðslu af honum, bara nákvæmlega eins og við borgum virðisaukaskattinn. Það er ekki talið fram þegar ég kaupi mér smjör eða sykur eða hvað það nú er og borga af því virðisaukaskatt. Ég þarf ekki að telja það fram. Það er bara tekinn af flatur skattur og svo er það gleymt. Nákvæmlega sama ætti að gera með launin; launin væru borguð út, tekin 22% í skatt og svo mætti maður eiga restina. Það væru aldeilis dýrðardagar ef það væri tekið upp.

Frú forseti. Ég er mjög hlynntur frumvarpinu. Ég tel að framlagning skattskráa séu leifar frá gamalli tíð þegar borgararnir voru látnir njósna hver um annan til að stunda skatteftirlit og skattrannsóknir. Til þess höfum við mjög öflugar stofnanir í dag og þær sinna hlutverki sínu fullkomlega og birtingin á þessum upplýsingum hefur ekkert gildi.