131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Almenn hegningarlög.

409. mál
[17:11]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum. Málið fjallar um vararefsingu fésektar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Árnadóttur og Ásgerði Ragnarsdóttur frá dómsmálaráðuneyti. Þá bárust umsagnir frá lögreglustjóranum í Reykjavík, Sýslumannafélagi Íslands, ríkissaksóknara og Fangelsismálastofnun.

Með frumvarpinu er lagt til að lögboðin vararefsing fésekta nái til sekta allt að 300.000 kr. í stað 100.000 kr. eins og nú er og að hærri fjárhæð standi að baki hverjum afplánunardegi vararefsingar. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.