131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

142. mál
[17:14]

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Flutningsmenn eru nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar.

Ég óskaði sérstaklega eftir því að hv. formaður menntamálanefndar, Gunnar I. Birgisson, yrði viðstaddur umræðuna þar sem hann er ekki aðeins formaður menntamálanefndar heldur einnig formaður stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Honum er málið mjög skylt og ekki síst í ljósi þess að segja má að á undanförnum vikum hafi Lánasjóður íslenskra námsmanna fengið nýtt hlutverk án þess að um það hafi farið fram nokkur umræða.

Eftir breytingar á fyrirkomulagi tiltekinnar háskólamenntunar og stofnunar einkarekins háskóla utan um tæknigreinar er sjóðnum ætlað að standa undir stærri hluta reksturs skóla en áður í gegnum námslán til nemenda, í formi lána fyrir skólagjöldum. Það er þróun sem virðist hafin í íslenskum menntamálum á vegum hæstv. menntamálaráðherra án þess að hún hafi beitt sér fyrir því að fram færi umræða um það á vettvangi stjórnmálanna, á Alþingi, um hvort skólagjaldavæða skuli menntakerfið í auknum mæli og að hve miklu leyti.

Hvað leyfist okkur t.d. að taka margar námsgreinar út úr hinum opinberu skólum eins og gert var þegar Tækniháskóli Íslands var lagður saman við Háskólann í Reykjavík? Sú staða er núna uppi að ekki er hægt að læra tæknifræði, grunnnám á háskólastigi, nema í hinum einkarekna skóla gegn skólagjöldum.

Það má vel vera að það verði að einhverju leyti niðurstaða hinnar pólitísku umræðu að skólagjöld eigi að standa undir auknum hluta háskólastigsins. Menn hafa bent á að háskólamenntun hafi aukist gífurlega, endurskoða þurfi fjármögnun háskólastigsins o.s.frv. Það er allt gott og blessað. Ég og félagar mínir sem flytja með mér þetta frumvarp til laga um lánasjóðinn höfum ítrekað kallað eftir því að hæstv. menntamálaráðherra og forusta yfirvalda í menntamálum beiti sér og taki þá upp almenna og víðtæka umræðu um fjármögnun háskólastigsins, skólagjöld, lán fyrir skólagjöldum eða ekki lán — allt eftir atvikum. Hvernig ætla menn að tryggja jafnrétti til náms ef skólagjöld verða í auknum mæli lögð á háskólanám? Allt er þetta undir og allt er þetta til umræðu. Á liðnum mánuðum höfum við horft upp á það að skólagjöld eða innritunargjöld eru hækkuð í opinberu skólunum. Skólagjöld eru tekin upp í fleiri greinum eins og raunin er með tæknigreinarnar án þess að, eins og ég segi, umræða hafi farið fram um það hvort skólagjöld skuli standa undir auknum hluta námsins.

Nú ætla ég ekkert að fortaka fyrir það og hef svo sem sagt það áður að að sjálfsögðu komi vel til greina að til að mynda tiltekið framhaldsnám á háskólastigi sé fjármagnað að einhverjum hluta með skólagjöldum. Ekkert er útilokað í því en umræðan verður að eiga sér stað og skólagjaldavæðing í skjóli myrkurs án umræðu um málið er forkastanleg, má ekki eiga sér stað og á ekki rétt á sér.

Þetta rifjast upp í því samhengi að við erum að ræða um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Hann hefur stórpólitískt hlutverk í samfélaginu. Hann er félagslegur jöfnunarsjóður til að veita öllum aðgengi að háskólanámi og framhaldsskólanámi að hluta, verknámi að hluta, án tillits til efnalegs bakgrunns viðkomandi eða bakhjarla hans í lífinu. Lánasjóðurinn hefur að mörgu leyti gegnt þessu hlutverki farsællega. Hann er ein af lykilstofnununum í samfélaginu að mínu mati. Hann er þáttur í grunngerð samfélagsins sem stendur undir velferð og tilteknum jöfnuði og hlutverk hans er stórt í þeirri umræðu allri.

Nú er það svo að sjóðnum þarf að breyta að nokkru leyti til að hann geti staðið undir því hlutverki að vera félagslegur jöfnunarsjóður sem tryggir jafnrétti til náms. Þar þarf sérstaklega að breyta því, eins og við leggjum til í frumvarpinu, að ekki skuli krafist annars ábyrgðarmanns á námslán en sjálfskuldarábyrgðar námsmannsins sjálfs. Sé krafist ábyrgðarmanns á lánin er sjálfkrafa verið að mismuna fólki eftir efnalegum bakgrunni af því að sumir, og margir að sjálfsögðu, hafa aðgengi að ágætlega stæðum eða gjaldgengum bakhjörlum í lánastofnununum til að skrifa upp á lánin sín en aðrir hafa það einfaldlega ekki. Til eru margar sögur af því að námsmenn hafi hreinlega horfið frá námi af því að þeir hafi misst bakhjarlinn frá láninu. Þar með er Lánasjóður íslenskra námsmanna hættur að gegna því hlutverki að vera félagslegur jöfnunarsjóður sem tryggir jafnrétti, jöfnuð og velferð í þjóðfélaginu. Það er þó ein af lykilskyldum hans sem hann rækir að mörgu leyti vel en það að krafist sé ábyrgðarmanns á lánin er ákveðin aðför að því hlutverki.

Þá leggjum við sérstaklega til að ef námsmaður lýkur lokaprófum á tilskildum tíma samkvæmt reglum viðkomandi skóla breytist 30% af upphæð námslánsins í styrk. Styrkurinn yrði skattfrjáls og óháður tekjum viðkomandi námsmanna. Ljúki námsmaður ekki lokaprófum á tilskildum tíma samkvæmt reglum viðkomandi skóla og geti hann ekki framvísað vottorðum um lögmæt forföll verður ekki um styrkveitingu að ræða. Stjórn sjóðsins sker úr um í vafatilvikum hvort námsmaður telst hafa lokið lokaprófum á tilskildum tíma.

Ég held að þessi grein, að hluti námslána breytist í styrk að námi loknu hafi námi verið lokið á tilskildum tíma, sé einnig mjög mikilvæg réttlætisbót í námslánakerfi okkar.

Ef við tökum opinberu háskólana, t.d. Háskóla Íslands, er oft haft á orði að þar sé tiltekinn hluti nokkuð lengi að ljúka námi sínu og hefur að sjálfsögðu hinar fjölbreyttustu ástæður fyrir því. Sumir geta ekki stundað háskólanám nema á tilteknum tíma og með miklu hægari yfirferð en aðrir vegna aðstæðna sinna, fjölskylduaðstæðna og atvinnu. Aðrir kjósa það af öðrum ástæðum en það er skoðun mín og okkar flutningsmanna að breyttist hluti námslána í styrk að námi loknu mundu margir koma hlutunum þannig fyrir að þeir yrðu miklu fljótari með nám sitt. Mikil hagkvæmni er fólgin í því og sparnaður fyrir skólakerfið. Innbyrðis og samantekið er ekki um að ræða að mati okkar mikil aukin útgjöld, ef nokkur yfirleitt, vegna þess hve margir mundu ljúka námi fyrr en nú er. Það munum við óska eftir að verði reiknað sérstaklega út á vegum menntamálanefndar þegar málið verður komið þangað.

Þá leggjum við til að námslán verði veitt fyrir fram fyrir hvern mánuð, ekki að þau séu greidd eftir á þannig að námsmönnum sé att út í það að taka yfirdráttarlán í bönkum með nokkurs konar veði í væntanlegu námsláni, yfirdráttarlán á okurvöxtum af því að eins og allir vita þá tíðkast okurvextir í íslensku bankakerfi að miklu leyti og sérstaklega þegar kemur að neyslulánum og yfirdráttarlánum til þeirra sem hafa minnst fjárráðin og fæsta möguleikana.

Þetta mál tekur á ýmsum hlutum, ýmsum mikilvægum réttlætisbreytingum sem við flutningsmenn teljum að verði að eiga sér stað á Lánasjóði íslenskra námsmanna eigi hann að geta staðið undir því hlutverki sem ég nefndi áðan, sérstaklega í ljósi þess að nú hefur sjóðurinn fengið aukið hlutverk í íslensku menntakerfi, eins og ég segi, án þess að um það hafi farið fram nokkur sérstök pólitísk umræða. Honum er ætlað aukið hlutverk, nú eftir afnám laga um Tækniháskóla Íslands og niðurlagningu þess skóla og sameiningu við annan. Hann á að standa undir auknum rekstri þess nýja skóla. Hann á að veita nemendunum lán fyrir skólagjöldunum.

Námslánin eru eins og fram hefur komið niðurgreidd að stórum hluta, þ.e. yfir 50%, þannig að í leiðinni eykur ríkið útgjöld sín til hins nýja skóla í formi niðurgreiddra námslána. Þess vegna hef ég kallað eftir og bent á mikilvægi þess að allt verði tekið undir og staða lánasjóðsins og hlutverk rætt um leið og stjórnmálamenn ræða það hvort skólagjaldavæða eigi íslenskt háskólanám að verulegu leyti eða í meira mæli.

Þess vegna óskaði ég eftir því að hv. formaður menntamálanefndar væri við en hann er staddur erlendis, því miður, þannig að ég mun óska eftir því að hann komi að 2. umr. málsins þegar og ef svo skringilega vildi til að málið yrði afgreitt út úr nefnd og kæmi til 2. umr. Það gerist þó eiginlega aldrei með þingmannamál og hvað þá þingmannamál frá stjórnarandstöðunni. Þau eru svæfð í nefnd, sama hversu mikilvæg og áríðandi þau eru eins og þetta mál sem við ræðum hér. Hv. varaformaður menntamálanefndar Dagný Jónsdóttir varð góðfúslega við þeirri ósk minni að vera við umræðuna sem fulltrúi meiri hlutans í nefndinni og fulltrúi hv. formanns Gunnars Birgissonar sem er því miður erlendis en hefði sjálfsagt verið við umræðuna ef hann hefði getað.

Í greinargerð með frumvarpinu segir:

Með þessu frumvarpi eru settar fram grundvallarbreytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Lagt er til að námslán verði ávallt greidd fyrir fram fyrir hvern mánuð. Þá er lagt til að krafa um ábyrgðarmenn á lánum verði felld brott úr lögunum enda samræmist hún ekki ákvæðum laganna um jafnrétti til náms. Vitað er um mörg dæmi þess að ungt fólk hefur orðið að hverfa frá áætlunum um frekara nám vegna þess að það hefur ekki getað framvísað ábyrgðarmönnum sem lánasjóðurinn tekur gilda. Hver námsmaður á sjálfur að vera ábyrgur fyrir endurgreiðslu síns námsláns og á að undirrita skuldabréf þess efnis. Stjórn sjóðsins ákveður hvaða skilyrðum lántakandi þarf að fullnægja.

Þetta er gamalt baráttumál ýmissa félagslega þenkjandi stjórnmálamanna í gegnum tíðina, kannski það mikilvægasta í þessu lagafrumvarpi okkar þingmanna Samfylkingarinnar sem það flytjum, þ.e. að afnema kröfuna um ábyrgðarmenn á námslán. Hún er ranglát og fyrir henni eru engin sérstök rök. Ég mun sérstaklega óska eftir því í umsögnum um málið þegar menntamálanefnd sendir það út að það verði metið hvert fjárhagslegt vægi þessarar ábyrgðarmannakröfu er. Ég held að það sé eiginlega ekki neitt og engin ástæða er til að ætla að vanskil á námslánum aukist ef námsmaðurinn sjálfur ber ábyrgð á skuldum sínum. Námsmenn eru að sjálfsögðu upp til hópa ábyrgt fólk sem vill standa í skilum og leggur sig fram um að skuldbindingar þess lendi ekki í fanginu á einhverjum bakhjörlum þess, eða ábyrgðarmanni, foreldri, félaga eða vini. Ég er sannfærður um að vanskil mundu ekki aukast þótt við afnæmum þessa fáránlegu og ranglátu kröfu sem gerir ekkert annað en að torvelda efnalitlu fólki, sem hefur hvorki bakgrunn né efnafólk að sækja í, að stunda nám, háskólanám eða verknám.

Ekki síður er það mikilvægt í verknáminu, fyrir þá sem hafa lokið grunndeildum í iðnnáminu eins og þær eru og voru, að geta fengið námslán til að taka seinni hluta námsins, ef svo má segja. Það er oft mjög mikilvægt. Forsendur þess að ungir verknemar geti þreytt nám sitt og lokið er að þeir hafi aðgang að námslánum án þess að þurfa að ganga jafnvel á milli hinna og þessara, stundum svo að niðurlægjandi er, og óska eftir því að skrifað sé upp á námslán þeirra þannig að þeir geti stundað nám. Það væri gaman og fróðlegt að láta gera úttekt á því, meta út frá reynslu annarra þjóða o.s.frv. hvort vanskil mundu aukast sem nokkru næmi ef þessi ábyrgðarmannakrafa yrði felld brott úr lögunum.

Þá er hin meginbreytingin sem við leggjum til og ég held að sé mjög mikið atriði að verði eitt af stóru skrefunum í íslenskri skólapólitík, þ.e. að hluti af námslánum breytist í námsstyrki. Annars staðar á Norðurlöndunum eru námsstyrkir ekki einu sinni bundnir við að námsmenn ljúki formlegu námi en hér leggjum við til að það verði skilyrði fyrir styrkveitingu, enda held ég að það yrði jákvæður hvati þess að þeir sem hafa nokkurn kost á því ljúki námi sínu hraðar en ella, sleppi því þá kannski að vinna með náminu og taki námslán af því að þeir vita að takist þeim að ljúka námi sínu á tilskildum tíma breytist hluti þess í styrk að náminu loknu. Mikið réttlætismál, jákvætt mál, hvati til að fara í nám. Við vitum það öll að nám er ákaflega arðbært fyrir samfélagið og hver króna sem við setjum í menntakerfið, hvort sem er í gegnum lánasjóðinn, beint inn í skólastofnanir eða öðruvísi, kemur margföld til baka. Þess vegna er skólagjaldavæðing Sjálfstæðisflokksins í íslensku menntakerfi æ dularfyllri og undarlegri og vinnur bókstaflega gegn uppgangi og viðgangi þess að þekkingarsamfélag skjóti almennilega rótum á Íslandi og í íslensku atvinnulífi.

Það er alveg sérumræða hvernig ráðherrar Sjálfstæðisflokksins í menntamálum síðustu 14 árin hafa gengið fram, bæði þjóðinni og flokknum almennt til skammar og lítillækkunar, þar sem menntakerfið hefur verið svelt til verulegs tjóns. Á því sér og undan hefur gefið ef við miðum við hvernig aðrar þjóðir, hinar Norðurlandaþjóðirnar og vestrænar þjóðir almennt, standa að menntamálum sínum. Þess má geta að með OECD-mælingunni kemur fram í framlögum okkar til menntamála hvað við erum eiginlega ótrúlegir eftirbátar annarra þjóða. Við verjum minna en einu prósenti, 0,9% af þjóðartekjum til menntamála, á meðan Finnar, Svíar og aðrar Norðurlandaþjóðir eru langt fyrir ofan okkur, á bilinu 3–4% og Bandaríkjamenn eru með 5,2% af sínum þjóðartekjum.

Það er til skammar hvernig stjórnvöld standa að íslensku menntakerfi. Það hvernig gengið er fram nú orðið virðist miða að því einu að gengisfella stúdentsprófið með því að skerða það einhliða til að spara peninga og þannig námið stæði verr á eftir. Hitt er svo hvernig á að skólagjaldavæða hluta af háskólastiginu.

En hérna er lagt til, eins og segir í greinargerð, með leyfi forseta:

„Aðrar breytingar eru þær helstar að lagt er til að þegar námsmaður hefur lokið lokaprófum á tilskildum tíma eða framvísað vottorði um lögmætar tafir á námi breytist 30% af upphæðinni sem hann hefur tekið að láni í óendurkræfan styrk. Styrkurinn yrði hvorki tekjutengdur né skattlagður. Breytingar þær sem hér eru lagðar til taka mið af reglum annars staðar á Norðurlöndum. Í Svíþjóð eru 34,5% af þeirri upphæð sem námsmaður fær til ráðstöfunar á námstíma hreinn styrkur sé miðað við fullt nám en það eru u.þ.b. 7.200 sænskar kr. Annars staðar á Norðurlöndum eru námsstyrkir ekki bundnir við að námsmaður ljúki formlegu námi en hér er lagt til að það verði skilyrði fyrir styrkveitingu.“

Þá teljum við nauðsynlegt að það verði alla vega skoðað að hluti af endurgreiðslum námslána verði frádráttarbær frá skatti og þarf að athuga þann þátt sérstaklega. Við leggjum einnig til að endurgreiðsluhlutfall námslána lækki. Það hefur að hluta verið gert hér fyrr í vetur og var það hið ágætasta framtak og ber að fagna því sérstaklega. Það er kjarabót fyrir þá sem hafa lokið námi, eru með mikil námslán á bakinu, eru að borga upp undir ein mánaðarlaun á ári af námslánum sínum. Þeir standa nú betur að vígi eftir og er það ágætt og ber að fagna því sem vel er gert.

Í einstökum athugasemdum við greinarnar kemur fram t.d. um 2. gr. frumvarpsins að við leggjum til ýmsar breytingar, með leyfi forseta:

„Lagðar eru til ýmsar breytingar á 6. gr. laganna. Í fyrsta lagi er lagt til að námslán verði veitt fyrir fram fyrir hvern mánuð. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir þá fjárhagserfiðleika sem nemendur lenda í við upphaf háskólanáms. Verði námsframvinda ekki með eðlilegum hætti samkvæmt reglum viðkomandi skóla stöðvast greiðslur námslána, sbr. 4. mgr. 6. gr. laganna. Í öðru lagi er lögð til frekari skilgreining á því hvað sé eðlileg námsframvinda og miðast ákvörðun þess við reglur skóla þar sem nám er stundað. Að lokum eru lagðar til breytingar á reglum um ábyrgðarmenn. Skv. 1. gr. laganna er það hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Námslán eiga þannig að tryggja jafnrétti til náms. Ekki getur verið um slíkt að ræða meðan krafist er ábyrgðarmanna fyrir námslán. Því er lagt til að hver námsmaður beri sjálfur ábyrgð á sínu námsláni.“

Þetta er meginatriði og upphaflegi meginhvatinn að þessu frumvarpi sem var í fyrstu gerð flutt af þáverandi hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur. Við fluttum það síðan í nýrri og breyttri mynd á liðnu þingi en það komst aldrei til umræðu í þingsal. Það var síðan endurflutt núna og er nú í fyrsta sinn mælt fyrir þessu máli í sölum Alþingis. Það verður að fróðlegt að fá inn umsagnir um málið og mat á kostnaðaráhrifum þess. Í því felast hagsbætur fyrir samfélagið allt að breyta sjóðnum þannig að hann hvetji í auknum mæli til náms með því að hluti námslána breytist í styrk og eins að ekki verði farið fram á ábyrgðarmenn fyrir lánin og einnig verður fróðlegt að sjá hvort það verði metið svo að vanskil námslána mundu aukast ef ábyrgðarmannakrafan verður felld brott. Ég er sannfærður um að svo sé ekki og er viss um að þegar að því kemur að við breytum lánasjóðnum með þessum hætti þá komi glöggt í ljós að það muni engu máli skipta hvað vanskil varðar.

Svo segir um 3. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Lögð er til grundvallarbreyting á lögunum með því að kveða á um í nýrri grein, 6. gr. a, að 30% af upphæð námsláns verði styrkur ljúki námsmaður lokaprófum á tilskildum tíma samkvæmt reglum viðkomandi skóla. Lagt er til að styrkurinn verði hvorki tekjutengdur né skattskyldur. Ljúki námsmaður ekki lokaprófum á tilskildum tíma samkvæmt reglum viðkomandi skóla og geti hann ekki framvísað vottorði um lögmæt forföll verður ekki um styrkveitingu að ræða og námsmaður þarf þá að endurgreiða lán sitt að fullu. Að lokum er lagt til að stjórn sjóðsins skeri í vafatilvikum úr um hvort námsmaður teljist hafa lokið lokaprófum á tilskildum tíma.“

Það má að sjálfsögðu ræða það hvort þörf sé á því að skilyrða það að hluti af lánum, 30% eins og við leggjum hér til, breytist í styrk að námi loknu við námslok eða ekki. Auðvitað yrði það til hagsbóta fyrir enn þá fleiri ef hluti af lánum breyttist í námsstyrki eins og þekkist svo víða á Norðurlöndunum. En mín skoðun er sú að til að byrja með sé skynsamlegt að tengja þetta við námslok af því að það er ákveðinn hvati til að líka fylgjast með því hver áhrifin verða og stíga síðan næsta skref þegar ákveðin reynsla verður komin á það hvernig þetta reynist og hve mikill hvati þetta verður fólki til að ljúka námi á því sem er kallað eðlilegur hraði.

Á það hefur verið bent að þeir sem stunda nám í Háskóla Íslands t.d. útskrifist almennt eftir mun lengri námstíma en þeir sem stunda nám í hinum einkareknu skólum og skýrist það að sjálfsögðu af því að þar greiða menn tiltölulega há skólagjöld fyrir hverja önn og það gefur auga leið að það er hvati fyrir fólk til að ljúka náminu á tilsettum tíma en um leið er það hindrun og fyrirstaða fyrir marga að stunda nám almennt ef um er að ræða há skólagjöld og sérstaklega af því að mjög margir hafa ekki aðstæður til að stunda nám á því sem kallað er eðlilegur hraði, þurfa að stunda námið á kannski þriðjungshraða eða hálfum hraða og miklu lengri tíma en ná samt á nokkrum árum að ljúka sínu námi og eru þá miklu betur staddir í samfélaginu.

Ég benti sérstaklega á það í upphafi umræðunnar að Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur bæði nýtt og aukið hlutverk í samfélaginu. Mér þykir miður að sjóðnum hafi verið fengið það hlutverk án þess að skólapólitísk umræða færi fram um það á vettvangi Alþingis og annars staðar hvort við ættum að fjármagna háskólanámið að auknum hluta í gegnum lánasjóðinn. Um það bil helmingur námslána er niðurgreiddur þannig að í raun er verið að fara ákveðna baktjaldaleið að því að auka útgjöld ríkisins til viðkomandi skóla en samt er því einnig velt yfir á námsmanninn. Því er undarlegt að þessi umræða skuli ekki hafa verið tekin á réttum forsendum, að mínu mati, og mun ég sérstaklega kalla eftir því við formann menntamálanefndar sem einnig er formaður stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna að það verði skýrt rækilega út fyrir okkur hvaða pólitísku forsendur liggi að baki þessu aukna og nýja hlutverki sjóðsins og hvort tekin hafi verið um þetta meðvituð ákvörðun. Var það t.d. rætt í stjórn lánasjóðsins að þetta nýja hlutverk biði sjóðsins og hvernig vilja menn bregðast við því? Hvað þýðir þetta í auknum útgjöldum fyrir sjóðinn o.s.frv.?

Ég spurði hv. formann menntamálanefndar ítrekað að þessu við 1. umr. um afnám laga um Tækniháskóla Íslands og einnig aðeins við 2. eða 3. umr., 2. umr. tel ég. En því svaraði hv. þingmaður ekki í smáatriðum eða neitt sérstaklega þannig að sú umræða bíður betri tíma. Mun ég sérstaklega kalla eftir þeim upplýsingum í menntamálanefnd þegar við förum yfir og ræðum þetta mál að það verði skýrt sérstaklega út hver aðkoma stjórnar sjóðsins var að þessu. Eða var það einhliða ákvörðun hæstv. menntamálaráðherra að velta sjóðnum með þessum hætti inn í það að taka þennan aukna þátt í kostnaði við tilteknar greinar á háskólastigi og við tiltekna skóla á háskólastigi? Hvernig á að jafna það gagnvart öðrum skólum, þ.e. ef það á að gera, o.s.frv.? Þetta kallar á margar spurningar sem skipta heilmiklu máli, skipta meginmáli þegar framtíð sjóðsins er rædd.

En þetta frumvarp miðar að því að sjóðurinn geti staðið undir því að teljast félagslegur jöfnunarsjóður sem tryggir jafnrétti til náms og vona ég að þetta mál fái þannig framgang í þinginu að nefndin afgreiði það og það komi fyrir þingið aftur.