131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

142. mál
[17:39]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka flutningsmanni frumvarpsins, hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, fyrir hans mál. Hann kom inn á margt varðandi Lánasjóð íslenskra námsmanna og ég held nú að við séum svona sammála í meginatriðum um hlutverk hans og þá hugsun að varðveita þann félagslega jöfnunarsjóð sem námsmönnum stendur til boða.

Það var mjög ánægjulegt að taka þátt í starfi nefndar sem ég sat í í fyrra sem vann að því að endurskoða lög lánasjóðsins með það að markmiði að lækka endurgreiðslubyrði námslána. Framsóknarflokkurinn var með það á kosningastefnuskrá sinni fyrir síðustu kosningar að endurgreiðsla LÍN yrði lækkuð til samræmis við eldri lánaflokk og það var einnig kveðið á um það í stjórnarsáttmála. Þar stendur eftirfarandi, með leyfi herra forseta:

„Lánasjóður íslenskra námsmanna gegni áfram því meginhlutverki að tryggja öllum tækifæri til náms. Hugað verði að lækkun endurgreiðslubyrði námslána og lög um sjóðinn verði endurskoðuð.“

Þetta var gert og niðurstaðan var sú, eins og ég sagði áðan, að endurgreiðslan fór niður í 3,75% og tek ég undir með hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni að það er ánægjulegt. Ef ég nefni dæmi um nýútskrifaðan háskólastúdent með t.d. 250 þús. kr. í laun á mánuði þá munar þetta um 30 þús. kr. á ári. Munar nú um minna. Það er því búið að koma endurgreiðslu námslána í fyrra horf, eins og það var áður en það rauk upp úr öllu valdi og er það vel.

Hv. þingmaður talaði um ábyrgðarmannakerfið. Það hefur lengi verið til umræðu. Ég man eftir því að hafa upplifað það í fyrrverandi starfi mínu sem framkvæmdastjóri stúdentaráðs að standa frammi fyrir námsmönnum sem ekki gátu leitað til neinna aðstandenda um ábyrgð og gátu þar af leiðandi ekki stundað nám. Við höfðum þessi dæmi. Þess vegna er ég mjög ánægð með þá lendingu sem lánasjóðurinn náði í vetur. Ég held að vert sé að gefa því aðeins tækifæri til að virka, en það varðar það að bankarnir ábyrgjast lánin gegn hóflegri greiðslu. Við vorum nú með þessa hugmynd. Það var samþykkt á flokksþingi okkar framsóknarmanna, man ég, fyrir kosningarnar síðustu að lánasjóðurinn mundi leita annarra leiða til að ábyrgjast lán. Þá vorum við að velta fyrir okkur hugmyndum um það taka þetta í gegnum tryggingafélögin eða reyna að leita einhverra leiða til að landa þessu máli vegna þess að við töldum að það væri ekki kannski fullkominn vilji fyrir því að hætta alveg við ábyrgðarmannakerfið vegna þess að við höfum heyrt að það muni hafa töluverð áhrif á sjóðinn. En það liggja ekki fyrir útreikningar á því.

Þetta er sem sagt komið í þennan farveg. Mig minnir að Landsbankinn hafi riðið á vaðið með þetta og stúdentar lýstu yfir mikilli ánægju með þetta. Nemendur greiða þá í þetta gjald sem sagt ákveðið prósentuhlutfall af láninu og mér skilst að þetta séu nokkrir þúsundkallar. Þetta eru ekki háar upphæðir. Ég hef heyrt af foreldrum sem eru gríðarlega ánægðir með þetta og greiða þetta gjald með glöðu geði til að losna við að skrifa upp á lánin. Aðrir bankar hafa fylgt í kjölfarið. Ég held því, eins og ég segi, að þetta sé komið í ákveðinn farveg og vona að þetta haldi áfram að þróast. Það sem ég er mest ánægð með er að nú fá allir þetta tækifæri því að 4 eða 5 þús. kr. verða nú ekki kannski til þess að stoppa námsmann af í þessu.

Í þessu frumvarpi er líka komið inn á styrktarkerfið, þ.e. að ákveðinn hluti af námsláninu breytist í styrk ef viðkomandi lýkur lokaprófum á tilskildum tíma. Ég held að það sé nú reyndar ágætt að stuðla að því að fólk fari skilvirkt í gegnum skólakerfið. Það er til hagsbóta. Ég vil þó taka fram að það var einmitt rætt um þetta í þessari nefnd þar sem við unnum að lækkun endurgreiðslubyrðar á námslánum og í áliti nefndarinnar sem var sent til hæstv. menntamálaráðherra var einmitt sagt að sérstök athugun mundi fara fram á kostum og göllum þess að gera frekari greinarmun en nú er gerður á lánaþætti og styrkjaþætti námsaðstoðarinnar. Að mínu mati er mjög mikilvægt að við förum í þessa vinnu, förum í að skilgreina þetta.

Við vitum, eins og hv. þm. Björgvin Sigurðsson vitnaði í áðan, að þetta hefur tíðkast á Norðurlöndum með ýmsum aðferðum. En síðan heyrir maður af því núna að einhver lönd vilja fara úr styrkjakerfinu og aftur í lánakerfið. Þess vegna held ég að mikilvægt sé fyrir okkur að fá einhverjar greinargerðir frá þessum löndum um hvernig fyrirkomulagið hefur virkað og hver ástæðan sé fyrir því að þau vilja hverfa til baka, væntanlega út af miklum kostnaði býst ég við.

Kveðið var á um þetta í nefndarálitinu sem barst hæstv. menntamálaráðherra og munum við að sjálfsögðu fylgja því eftir að farið verði í þessa vinnu og eðlilegt að lánasjóðurinn haldi utan hana. Ég get ekki ímyndað mér að þetta sé óyfirstíganlegt.

Það er ýmislegt í frumvarpinu sem ég tel vera komið í ákveðinn farveg, annað ekki og verður fróðlegt að sjá þær umsagnir sem berast um þau atriði sem út af standa.