131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Íslenskun á ræðum æðstu embættismanna.

175. mál
[18:23]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tel, hvað sem líður fiskveiðistjórnarkerfinu og einstökum ummælum ráðamanna, að hér flytji hv. þingmaður gott mál og það sé í raun og veru sjálfsagt að Íslendingar geti lesið á íslensku ræður helstu forustumanna sinna sem þeir flytja erlendis á öðrum tungum.

Í raun og veru ætti ekki að þurfa að flytja sérstakar tillögur um það, eins sjálfsagt og það er. Þau samskipti sem fara þannig fram eru okkur afar mikilvæg, utanríkispólitík sem fram fer með þeim hætti. Það verður að gera þá kröfu að íslenskir borgarar geti nálgast á móðurtungu sinni allt efni sem embættismenn og stjórnmálamenn bera á borð. Vissulega verður að vera hóf í hverjum hlut og það er ekki víst að þýða þurfi nákvæmlega hvert orð af því sem þessir miklu snillingar láta út úr sér þegar komið er út fyrir landsteinana — og reyndar hér innan lands líka því að menn lenda auðvitað í því að þurfa að tala útlensku hér við erlenda gesti. Þá þurfum við ósköp einfaldlega eitthvert flokkunarkerfi sem gerir ráð fyrir því að hinar opinberu ræður sem samdar eru fyrir fram og menn hafa fyrir að lesa og birta á netsíðum sínum, þeir sem þær hafa, séu þýddar og annað efni sé þá kannski þannig að hægt sé að fá aðstoð eða túlkun við að komast að meiningunni í því.

Mér finnst þetta í raun og veru alveg sjálfsagt þó að ég geri mér grein fyrir að það verður að hafa eitthvert hóf í þessu. Ég held að ef menn færa fjárhagsástæður fyrir því að geta ekki orðið við beiðnum af þessu tagi verði þingið að koma til móts við hvert embætti fyrir sig og reikna með því að það kosti ákveðið að halda uppi hinni íslensku tungu.

Hv. flutningsmaður Sigurjón Þórðarson minntist að lokum á að þetta væri tengt máli sem flutt var hér í fyrra, og við fluttum reyndar saman ásamt þeim Kolbrúnu Halldórsdóttur, Guðmundi Hallvarðssyni og Hjálmari Árnasyni, hv. þingmönnum, ef ég man rétt, um einmitt réttarstöðu íslenskrar tungu. Ég held að þetta sýni hvað með öðru, enska boltanum, því máli sem hér var illu heilli samþykkt um daginn um Evrópumálin, að heimilt væri að hafa tilskipanir óþýddar í ákveðnum tilvikum, og fjölda annarra dæma sem eru að koma upp, að taka þarf þetta mál föstum tökum. Það þarf að skilgreina réttarstöðu tungunnar.

Að mínu viti ætti að setja í stjórnarskrá klausu um það að íslenska sé opinbert tungumál á Íslandi, ásamt svo táknmáli heyrnarlausra — ég held að það yrði eins og ég hef áður rakið hér í salnum heyrnarlausum mjög að gagni ef það yrði gert. Út frá slíku stjórnarskrárákvæði ætti síðan að útbúa lög sem taka eðlilega á þessum málum, gefa íslenskunni allan þann rétt sem hún á skilið en gera jafnframt grein fyrir því hvernig við afgreiðum mál sem liggja á þessum gráu svæðum, á milli móðurtungu okkar og annarra mála, annars vegar alþjóðamálanna, fyrst og fremst ensku, en hins vegar líka annarra mála sem koma okkur við, t.d. mála íbúa eða innflytjenda sem auðvitað eru með nokkrum hætti mál Íslendinga þótt þau séu kannski ekki opinbert mál þeirra.

Ég tek undir með flutningsmanni og vil sýna honum stuðning. Ég held að dropinn holi að lokum steininn og við fáum kannski á næstu missirum eða árum það samþykkt að fara í þetta verk, að skilgreina réttarstöðu íslenskrar tungu. Þá er það einn liðurinn að skilgreina líka þann rétt sem íslenskir borgarar hafa til þess að lesa mál forustumanna sinna á erlendum vettvangi án þess að vera miklir málamenn.