131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Íslenskun á ræðum æðstu embættismanna.

175. mál
[18:30]

Flm. (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég þakka góðar undirtektir hv. þm. Marðar Árnasonar og Atla Gíslasonar, enda er hér um sjálfsagt mál að ræða í sjálfu sér en samt ekki sjálfsagðara en svo að því hefur verið hafnað.

Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Marðar Árnasonar að það er sjálfsagt að skoða þessa hluti. Þetta varðar þýðingu á heimasíðum þingmanna og fleiri texta. Í afsvari forsetans kemur fram ábending frá forsetaembættinu til þess sem hér stendur að það sé einmitt ræða á xf.is á ensku sem Sigurjón Þórðarson, sá sem hér stendur, hafi skrifað. Ég brást auðvitað við með því að íslenska ræðuna. Mér fannst það eðlilegt. Ég þakka forsetaembættinu fyrir ábendinguna því að eflaust hafa margir farið á mis við efni ræðunnar vegna þess að hún var á ensku.

Að sama skapi hefði forsetaembættið átt að taka ábendingum mínum vel, íslenska ræðuna og gera það að vinnureglu. Kannski gerir forsetaembættið það að vinnureglu á næsta fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Það væri góð regla og ágætt að nota það tækifæri.

Að lokinni umræðunni vil ég vísa málinu til menntamálanefndar.