131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Utandagskrárumræða um viðgerð á varðskipum.

[13:30]

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég sé mig tilknúinn til að kveðja mér hljóðs undir þessum dagskrárlið til að óska eftir úrskurði hæstv. forseta þingsins í ákveðnu máli. Þegar ljóst varð að ákveðið var að taka tilboði pólskrar skipasmíðastöðvar í viðgerð á tveimur varðskipum kom í ljós á mánudag að þrír hv. þingmenn höfðu óskað eftir að ræða þetta mál á hinu háa Alþingi utan dagskrár, þ.e. hv. þm. Birkir Jón Jónsson við fjármálaráðherra, hv. þm. Jón Bjarnason við iðnaðarráðherra og sá sem hér stendur við hæstv. dómsmálaráðherra.

Á fundi forseta þingsins með formönnum þingflokka í gær var það úrskurður forseta að þetta mál ætti að ræðast við hæstv. iðnaðarráðherra. Nú hefur það hins vegar komið í ljós, virðulegi forseti, að hæstv. iðnaðarráðherra harðneitar að ræða þetta mál og segir það ekki á sínu sviði. Þess vegna óska ég eftir úrskurði hæstv. forseta um það hvort þetta mál eigi að ræðast við hæstv. fjármálaráðherra eða dómsmálaráðherra. Ég tel nauðsynlegt að fá úr því skorið svo að þetta sé ekki fast í þingtæknilegu þrasi milli ráðuneyta eða ráðherra.

Virðulegi forseti. Það er auðvitað eðlilegt að þetta sé rætt á hinu háa Alþingi. Það kemur í ljós að tilboðið er 44% hærra en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á. Það kemur líka í ljós að það á að vinna þetta á háannatíma þannig að það er kannski eðlilegt að há tilboð berist.

Vegna þess að hæstv. dómsmálaráðherra er hér langar mig að nota þetta tækifæri til að þakka honum fyrir að berjast vel. Hann hefur komið með góðar tillögur um uppbyggingu Landhelgisgæslunnar í ríkisstjórn. Fyrir það ber auðvitað að þakka og hygg ég að allir þingmenn séu þakklátir fyrir það og sammála því verki. Þá vil ég nota tækifærið og spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort málið sé komið á lokastig, hvort Landhelgisgæslan sé virkilega búin að skrifa undir tilboð við hina pólsku skipasmíðastöð.