131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Utandagskrárumræða um viðgerð á varðskipum.

[13:38]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er eiginlega að vonum að það skuli vera rætt um þrjá ráðherra til svara þegar á að ræða mál skipasmíðaiðnaðarins í landinu. Svoleiðis hefur það alltaf verið. Það hefur aldrei verið neinn raunverulegur málsvari þessa iðnaðar og þess vegna hefur hann drabbast niður. Engin ríkisstjórn hefur staðið við bakið á honum, og iðnaður sem ætti að vera stóriðja á okkar mælikvarða er þess vegna hvorki fugl né fiskur. Ábyrgðin liggur í sölum Alþingis því að tækifærin til þess að þessi iðnaður í landinu sé mikill og mikils virði eru nóg og hafa alla tíð verið.

Vantrúin hefur verið slík á getu þessa iðnaðar til að þjóna landsmönnum að forráðamenn þjóðarinnar hafa ekki viljað leggja honum lið. Forráðamenn útgerðar í landinu hafa t.d. unnið gegn honum. Þannig hefur þetta verið í gegnum tíðina. Það þarf eitthvað meira en mótmæli hæstv. iðnaðarráðherra, þó að ég verði að segja eins og er að mér finnst út af fyrir sig gott ef iðnaðarráðherra ætlar loksins að stíga fram og fara að gera eitthvað. Ég man ekki betur en að svona yfirlýsingar hafi verið gefnar 2001 þegar tvö varðskip fóru til Póllands til endurbóta. Þá átti einmitt að fara í það að taka öðruvísi á málum til að svona verkefni færu ekki úr landi.

Við erum í sömu sporum núna. Nú er búið að taka tilboði en það virðist ekki vera samstaða í ríkisstjórninni um að láta það fara til útlanda. Kannski veit það á að menn ætli að breyta til.