131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Utandagskrárumræða um viðgerð á varðskipum.

[13:56]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs undir liðnum Um fundarstjórn er að ég tel mikilvægt að því verði komið á framfæri við forseta þingsins hverjar staðreyndir málsins eru. Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur, formanni þingflokks Samfylkingarinnar, um fund þingflokksformanna frá því í gær og um niðurstöðu þess fundar. Ég tek undir hvert orð hennar.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sættum okkur hins vegar ekki við að neitun hæstv. iðnaðarráðherra verði til þess að umræðan falli niður og að við getum ekki efnt til umræðu gagnvart ráðuneyti hennar, ráðuneyti iðnaðar- og byggðamála. Við viljum standa fast á því og vísum þar í þingskapalög. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon las upp úr þingskapalögum sem kveða skýrt á um rétt þingmanna til að efna til utandagskrárumræðu, hvort sem ráðherra er viðstaddur eður ei. Og þótt hæstv. iðnaðarráðherra heykist á því að svara fyrir málaflokkinn og verða til svara í þeirri umræðu sem ég hvet til að fari fram á morgun, þá tel ég að þingið eigi að sameinast um að svo verði.