131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Evrópumál og störf Evrópustefnunefndar.

[14:02]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það vakti óneitanlega athygli þegar af því fréttist að formlegur starfshópur sem hafði með höndum undirbúning ályktunar um Evrópumál fyrir flokksþing framsóknarmanna á dögunum legði til að, með leyfi forseta, „stefnt skuli að því að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið á kjörtímabilinu og niðurstöður þeirra bornar undir þjóðaratkvæði í næstu alþingiskosningum“, hvorki meira né minna. Slík tillaga og kannski ekki síður slík vinnubrögð voru auðvitað alveg sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn er í stjórnarsamstarfi þar sem byggt er á allt annarri stefnu samkvæmt stjórnarsáttmála. Sem sagt, formaður Framsóknarflokksins er forsætisráðherra í ríkisstjórn með allt aðra stefnu, en formlegur undirbúningshópur í hans eigin flokki leggur engu að síður fram slíka ályktun.

Vandi manna er sá í svona tilvikum og alveg sérstaklega þegar Framsóknarflokkurinn á í hlut að menn vita ekki hvort þeir eiga að taka hlutina alvarlega. Hvað er í alvöru frá þessum flokki og hvað er frá auglýsingastofunni? Var þessi Evrópulopi beint af spunarokkum vikapiltanna í kringum forsætisráðherra og til þess ætlaður fyrst og fremst að draga athyglina frá valdabaráttu og innanflokksátökum og tryggja að ekki yrði rætt of mikið um óþægileg mál eins og Írak eða einkavæðingu Landssímans á flokksþinginu — eða hvað? Á hverju á að taka mark? Samstarfsflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, valdi greinilega a.m.k. á yfirborðinu hvað sem menn hugsa með sjálfum sér þar á bænum, þann kost að líta á þetta sem grín, ekki sem slit á trúlofun eða tilkynningu fyrir fram um að trúlofuninni verði slitið eftir tvö ár.

Utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, ákvað að treysta á lestrarkunnáttuna og fannst lítið til koma. Nú fór það að vísu svo að hvorki meira né minna en einar fimm útgáfur þurfti til að koma útþynntri ályktun saman. Fimmta útgáfan tengdist því að ýmist var talað um hugsanlegar viðræður eða hugsanlegan undirbúning viðræðna eða eitthvað því um líkt, sem sagt lausnarorðið mikla „hugsanlega“ var á einhverju flakki í textanum. En engu að síður kom hæstv. forsætisráðherra rogginn af flokksþinginu sínu með þennan Evrópubútung sinn útvatnaðan og talaði um tímamót.

Forsætisráðherra hefur einnig verið drjúgur yfir þeirri athygli sem þetta Evrópuútspil hefur vakið í nágrannalöndunum. Bondevik hefur legið í símanum og Anders Fogh viljað um fátt annað tala. Reyndar er merkilegt hvernig stanslaust er reynt að tala eins og Evrópumálin standi einhvern veginn allt öðruvísi í Noregi en þau gera í reynd. Staðreyndin er sú að grundvöllur núverandi stjórnarsamstarfs þar er eins og allir vita að Norðmenn hreyfi sig ekki í málinu og í samstarfsgrundvelli stjórnarandstöðuflokkanna, þ.e. sósíalíska Vinstri flokksins og Verkamannaflokksins sem hafa fullan hug á því að fella ríkisstjórnina og taka við er ljóst að aðildarumsókn er ekki inni í myndinni. Það er því ekkert sem bendir til þess að hreyfing verði á þessum málum í Noregi á næsta kjörtímabili hvernig sem stjórnarmynstur verður þvert á það sem framsóknarmenn og reyndar fleiri reyna iðulega að halda fram.

Ég held að það sé ekki að ófyrirsynju að hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, skýri fyrir Alþingi stöðu þessara mála í ríkisstjórn sinni og flokki og ég hef því lagt fyrir hann eftirfarandi spurningar:

1. Ef tímamót voru fólgin í samþykkt nýlega afstaðins flokksþings Framsóknarflokksins um Evrópumál, í hverju fólust þau tímamót og hvaða áhrif hefur atburðurinn á stöðu Evrópumála í núverandi stjórnarsamstarfi? Ég meina, annaðhvort er þetta eitthvað eða ekki.

2. Með hvaða hætti hefur forsætisráðherra kynnt erlendum starfsbræðrum sínum, t.d. í Noregi og Danmörku, þessi tímamót ef hann telur svo vera?

3. Hvaða viðhorf hefur forsætisráðherra til starfa Evrópustefnunefndar sem forveri hans skipaði og hvenær telur hann æskilegt að nefndin ljúki störfum eða skili áfangaskýrslu?

4. Munu fulltrúar Framsóknarflokksins í Evrópustefnunefnd tala þar fyrir því í kjölfar ályktunar flokksþingsins að umsókn um aðild að Evrópusambandinu verði lögð inn þegar á næsta kjörtímabili? Svar við þessari spurningu verður upplýsandi gagnvart þeim vanda okkar að reyna að átta okkur á því: Gerðist eitthvað þarna eða ekki?