131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Evrópumál og störf Evrópustefnunefndar.

[14:22]

Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Við heyrðum hér sjálfskipaðan djúpsálarfræðing þingsins ljúka ræðu sinni. Það var sögulegt upphaf að utandagskrárumræðu sem hófst hér með fleiri „efum“ og „mundi“ og „skyldi“ en ég hef nokkru sinni heyrt áður í utandagskrárumræðu á Alþingi eins og kom fram hér hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Ef öll þessi ef og kannski og skyldi og einlægur, mér liggur við að segja sjúklegur, áhugi hans á Framsóknarflokknum væri tekið burt úr ræðunni ímynda ég mér að hún fjalli eitthvað um Evrópusambandið, hvort við viljum ganga inn í það eða hvort við viljum ekki ganga inn í það.

Að sjálfsögðu getur enginn hér inni svarað þessari spurningu afdráttarlaust, eins og hér hefur komið fram, einfaldlega vegna þess að við höfum ekki svörin á reiðum höndum. Það eru ýmsar grundvallarspurningar sem menn velta fyrir sér. Hvað þýðir það fyrir langtímahagsmuni okkar sem þjóðar, hvað með EES-samninginn, hverju töpum við af fullveldinu, hvað er fullveldi á tímum alþjóðavæðingar, hvað um sjávarútveg, landbúnað o.s.frv.?

Þessi vinna hefur ekki farið fram nema að litlu leyti. Málið er einfaldlega ekki orðið nógu þroskað til að menn geti tekið eindregna afstöðu. Þess vegna er mjög mikilvægt að halda áfram vinnunni sem er í gangi í þeirri nefnd sem hér hefur komið til tals með langtímahagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Um það fjallar þessi nefnd og þar hefur margt verið gert og enn fleira á eftir að gera. Í þessari umræðu er það auðvitað skylda okkar að vera gagnrýnin en jafnframt opin fyrir kostum þess og göllum. Það er skylda okkar að hafa þetta mál á dagskrá.

Forpokuð afstaða Vinstri grænna í þessu máli, eins og ávallt þegar alþjóðamál ber á góma, kemur að sjálfsögðu ekki á óvart. Þeir minna mig stundum í alþjóðaumræðu á blinda dráttarjálka sem ekkert vilja (Forseti hringir.) sjá og þaðan af síður heyra og heimurinn siglir fram hjá þeim.