131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Lokafjárlög 2002.

440. mál
[15:00]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir þessar þakkir. En þannig er nú, eins og ég gat um, að lokafjárlagafrumvarp fyrir árið 2002 var lagt fram á fyrra þingi eins og ætlast er til. En það náðist ekki að afgreiða það. Í því efni er ekki við undirritaðan að sakast og reyndar engan mann því aðstæður voru þannig að það var ekki unnt að ljúka því máli.

Það er hins vegar rétt að núna með þessum tveimur frumvörpum, ef tekst að afgreiða þau fyrir vorið, er búið að koma þessum málum loksins á réttan kjöl miðað við það sem gert er ráð fyrir í lögunum um fjárreiður ríkisins frá 1997. Það hefur tekið þennan tíma vegna þess að menn hafa verið að fóta sig í nýju umhverfi. En næsta haust á að vera hægt að leggja fram lokafjárlagafrumvarp síðasta árs. Þannig verður það vonandi í framtíðinni að á haustin í kjölfar framlagningar fjárlagafrumvarps fyrir komandi ár, fjáraukalagafrumvarps fyrir yfirstandandi ár, komi jafnframt lokafjárlagafrumvarp sem geri upp árið þar á undan. Þá verðum við komin með þetta allt saman í réttan farveg hvað tímasetningar varðar og er ég að sjálfsögðu mjög ánægður með það.