131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[15:49]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum sem flutt er sem 182. mál á þskj. 182. Við flutningsmenn þessa frumvarps erum 12 hv. þingmenn Samfylkingarinnar. Hún var áður flutt á 128. og 130. löggjafarþingi en náði þá ekki fram að ganga.

Eins og við þekkjum hefur verðtrygging verið á inn- og útlánum á Íslandi í rúmlega 30 ár en meginforsendan fyrir verðtryggingunni var að hindra að sparifé landsmanna brynni upp í mikilli verðbólgu eins og raunin hafði verið á sjötta og sjöunda áratugnum. Jafnframt hafði verðtrygging verulega þýðingu til að jafna út greiðslubyrði lántakenda á tímum mikilla hagsveiflna. Verðtryggingu hefur aldrei verið beitt í útlánum lánastofnana til heimila í ríkjum OECD, að Íslandi undanskildu, heldur hefur notkun hennar einskorðast við ríkisskuldabréf.

Vissulega eru rök bæði með og á móti verðtryggingu. Þar má nefna að verulegum hluta áhættunnar vegna veðskulda og lánasamninga er komið yfir á skuldara. Sömuleiðis kemur misvægi í þróun launa og verðlags illa við fjárhag skuldarans, skekkir allar fjárhagsáætlanir heimilanna og hækkar oft verulega með sjálfvirkum hætti höfuðstól lána. Þekkt er líka að ýmsir þættir sem við höfðum engin áhrif á, eins og verðhækkanir erlendis, geta keyrt upp vísitöluna. Nefna má enn fremur að verðtrygging er oft tortryggileg í augum erlendra fjárfesta og getur torveldað og jafnvel komið í veg fyrir fjárfestingar erlendra aðila hér á landi sem ekki þekkja til notkunar verðtrygginga á fjárskuldbindingum. Trú á viðvarandi stöðugleika er líka forsenda þess að hægt sé að stíga stórt skref í afnámi verðtryggingar því að ella er hætta á að lánveitendur vilji áskilja sér verulega hátt áhættuálag sem kemur fram í hærri vöxtum. Afnám verðtryggingar gæti líka leitt til styttri lánstíma og hærri raunvaxta ef ekki er farið varlega í sakirnar.

Það er einmitt gert í þingsályktunartillögunni en hún felur í sér að viðskiptaráðherra skipi nefnd sem leggi mat á afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga í áföngum. Nefndin meti til lengri og skemmri tíma áhrifin á fjármálamarkaðinn og fjárskuldbindingar heimila og atvinnulífs og setji m.a. fram áætlun til nokkurra ára um afnám verðtryggingar miðað við mismunandi verðbólgustig og forsendur Seðlabankans um verðbólguspá. Það er lagt til að skoðaðir verði kostir þess og gallar að afnema verðtrygginguna á inn- og útlánum í áföngum sem og að lántakendur hafi val um lánskjör með og án verðtryggingar.

Nefndina á að skipa með aðild aðila vinnumarkaðarins, Fjármálaeftirlitsins, Seðlabanka og Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja.

Nú má ætla, virðulegi forseti, að fyrir þessari þingsályktunartillögu sé meirihlutastuðningur á Alþingi í ljósi þess að þrír flokkar hafa ályktað um afnám verðtryggingar. Mér er ekki kunnugt um afstöðu sjálfstæðismanna en Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndir hafa ályktað í þessa veru og Vinstri grænir eru með tillögu líka hér í þinginu um að þetta mál verði skoðað út frá samsetningu á breytilegum vöxtum og verðtryggingu.

Ég fagna því að hæstv. viðskiptaráðherra er viðstödd þessa umræðu vegna þess að það bar til tíðinda á nýafstöðnu flokksþingi framsóknarmanna að einmitt var ályktað í þessa veru. Þar kom fram og það bara mjög afdráttarlaust, án nokkurra skilyrða eða skoðunar á málinu, að afnema eigi verðtrygginguna. Með leyfi forseta segir í ályktun: „Afnema ber verðtryggingu lána.“ Hérna var ég að vitna beint í flokksþingssamþykkt framsóknarmanna og það kom fram í fjölmiðlum, sem mér fannst athyglisvert, að upphaflega snerist tillagan um að afnema verðtryggingu lána til skemmri tíma en 20 ára en í meðförum flokksþings framsóknarmanna var síðari liðurinn felldur út. Eftir stóð sú ályktun að bannað verði að verðtryggja lán á Íslandi í framtíðinni. Þetta var ályktunin hjá framsóknarmönnum og það er nauðsynlegt að heyra hvernig viðskiptaráðherra ætlar að framfylgja þessari ályktun flokks síns, hvort hún sé sömu skoðunar og flokksþingið um það að afnema beri verðtrygginguna, og þá spyr ég hvernig hæstv. ráðherra vill standa að afnáminu.

Frjálslyndi flokkurinn ályktaði líka á landsþingi sínu, með leyfi forseta:

„Frjálslyndi flokkurinn ályktar að verðtrygging verði með öllu afnumin.“

Síðan er ályktun frá síðasta landsfundi Samfylkingarinnar í þá veru að afnema beri verðtryggingu á húsnæðislánum.

Eins og ég segi, virðulegi forseti, sé ég ástæðu til að ætla að það sé verulegur stuðningur við þetta mál á þingi. Hér er vissulega farið miklu varlegar í sakirnar en kveðið er á um í ályktun þeirra þriggja stjórnmálaflokka sem ég nefndi. Með tillögunni er einungis lagt til að skipuð verði nefnd sem leggi mat á afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga í áföngum og afar mikilvægt er að kostir og gallar þess séu metnir af fyllstu varfærni en ljóst er að verðtrygging fjárskuldbindinga snertir mikla hagsmuni. Það er lagt til að nefndin meti áhrifin til lengri og skemmri tíma á fjármálamarkaðinn og fjárskuldbindingar heimila, atvinnulífs og hins opinbera.

Þótt verðtrygging fjárskuldbindinga hafi sína kosti hefur hún líka sætt mikilli gagnrýni sem hefur iðulega komið fram hér í sölum Alþingis. Menn hafa tekið málið upp og talið að afnema eigi verðtrygginguna en mótbárurnar hafa yfirleitt verið þær gegnum tíðina að það þurfi að vera viðvarandi stöðugleiki í einhvern tíma til þess að menn treysti sér út í það að afnema verðtrygginguna. Nú má segja að með fáeinum undantekningum hafi stöðugleikinn verið nokkuð viðvarandi og þá ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að afnema verðtrygginguna.

Ég hef verið að skoða þá þróun undanfarið hvernig verðtryggingin hefur komið út miðað við óverðtryggða vexti og verðtryggða vexti og það má segja að á síðustu tveim árum hafi verðtryggðir vextir yfirleitt verið hagstæðari en óverðtryggðir, með nokkrum undantekningum þó. Núna í janúar 2005 kemur t.d. í ljós að þegar búið er að taka inn verðtryggingu á lánum munar 2% sem verðtryggðir vextir eru hagstæðari lántakendum en almennir vextir óverðtryggðra lána. Það er því ýmislegt sem þarf að horfa til í þessu sambandi en það er mjög athyglisvert hvað hæstu óverðtryggðu vextir eru háir í dag. Lægstu óverðtryggðu vextir eru í dag tæplega 10% en hæstu óverðtryggðu vextir eru 16,3% sem er auðvitað gífurlega hátt. Lægstu verðtryggðu vextir eru 4,15% og hæstu verðtryggðu vextir 10,8% fyrir utan verðtrygginguna.

Það sem maður hefur líka áhyggjur af fyrir utan þessa verðtryggingu — og vil ég nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra um það — eru þessir gífurlega háu dráttarvextir sem eru 20% núna og þeir eru ákvarðaðir af Seðlabankanum. Samkvæmt nánari leiðbeiningum í lögum er ákvarðað hvernig þeir skuli fundnir út. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki ástæðu til þess, þegar við höfum verið lengi í verðbólgu á bilinu 2–3%, þó að hún sé hærri þessa stundina, að fara að huga að því að lækka dráttarvextina. Hverjir lenda í þeim? Oft og tíðum skuldugir einstaklingar sem eiga í erfiðleikum með að gera upp lánin sín og eru í vanskilum. Mér finnst alveg ótækt að ekki sé hugað að lækkun dráttarvaxtanna, sérstaklega þegar Seðlabankinn ákveður þá. Sömuleiðis bera yfirdráttarlán mjög háa vexti, þ.e. um 16% sem er þá í hæsta flokki óverðtryggðra vaxta. Ég tel mikilvægt að fá fram hjá hæstv. ráðherra hvort hún hafi skoðað þetta.

Það er alveg ljóst eins og ég nefndi, virðulegi forseti, að efnahagslegar aðstæður eru hér allt aðrar en þær sem kölluðu á verðtryggingu undir lok 8. áratugarins þegar verðbólgan varð mjög sveiflukennd og sparifé landsmanna brann hratt upp á verðbólgubálinu. Það hafa orðið miklar og verulegar breytingar á fjármálamarkaðnum. Vextir hafa lækkað töluvert, þó að enn séu þeir talsvert miklu hærri en í löndunum sem við berum okkur saman við þar sem vextirnir eru mun lægri og þar sem ekki þekkjast t.d. þau stimpilgjöld sem við höfum oft rætt í þingsölum. Er það orðinn hálfgerður óskapnaður í fjármálalífinu hér að þeim skuli vera viðhaldið. Vil ég spyrja hæstv. ráðherra um afstöðu hennar til stimpilgjalda.

Fram kom t.d. í blaði í dag að ríkið græði 3 milljarða á nýjum fasteignalánum og að í fjárlögum 2004 hafi verið gert ráð fyrir að tekjur vegna stimpilgjalda yrðu 3,6 milljarðar en þegar fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2005 var samið var gert ráð fyrir að þær yrðu 4,5 milljarðar í ár. Ef reynsla mánaðanna í september til janúar er framreiknuð yfir á yfirstandandi ár stefnir gróði ríkisins í 10 milljarða kr. en á fjárlögum var áætlað að ríkið hefði 3,4 milljarða af stimpilgjöldum. Hér kemur fram að tekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum hafi margfaldast frá því að bankarnir fóru að bjóða almenningi fasteignalán í september síðastliðnum og að ríkið græddi 6,5 milljarða kr. af stimpilgjöldum í fyrra en gert var ráð fyrir að tekjurnar yrðu um helmingi lægri. Er ekki orðin full ástæða til þess, virðulegi forseti, að skoða þennan óréttláta skatt? Hann er ekki einungis óréttlátur gagnvart einstaklingum heldur líka gagnvart viðskiptalífinu sem hefur margkallað eftir því að þetta verði skoðað. (Gripið fram í.) Ég er að tala um stimpilgjöld og ég er að tala um dráttarvexti. Ég er að tala um það sem almennt hefur áhrif á skuldir og skuldabyrði heimila. Þar eru stimpilgjöld ekki síst.

Hv. þm. Pétur Blöndal er auðvitað órólegur þegar farið er að tala um stimpilgjöldin vegna þess að flokkur hans hefur ekki staðið við það sem hann lofaði í þessu efni, að standa að því að afnema stimpilgjöldin. Það er full ástæða til að taka þau inn í umræðu núna.

Bankarnir hafa þó sýnt viðleitni á undanförnum árum í að draga aðeins úr lántökugjöldum en ríkið hefur ekkert gert í þessu efni og hreyfir sig ekkert í því að lækka þau óréttlátu gjöld sem stimpilgjöldin eru.

Vissulega hafa verið stigin skref í átt til þess að draga úr verðtryggingu á skammtímaskuldbindingum. Á árinu 1995 var ákveðið að minnka verðtryggingu í áföngum. Síðasta skrefið var stigið 1998, en þá var gert óheimilt að verðtryggja styttri innlán en þriggja ára og styttri útlán en fimm ára. Menn ætluðu sér lengra en það, sem var þó aldrei gert, þ.e. að afnema verðtryggingu alfarið af innlánum. Þrátt fyrir að þessi skref hafi verið stigin hafa þau ekki haft veruleg áhrif og lítið hefur dregið úr verðtryggingu fjárskuldbindinga og er verðtrygging enn á flestöllum lengri skuldbindingum.

Ég hef nefnt hér að verðtryggingu er ekki beitt á útlán lánastofnana til heimila í ríkjum OECD, að verðtryggingu ríkisskuldabréfa er að finna í átta OECD-ríkjum og að hlutfall verðtryggingar af ríkisskuldabréfum er hæst hér á landi eða um 86%, í Bretlandi er hún um 18%, í Svíþjóð rúm 7%, í Ástralíu um 4%, en lægra annars staðar.

Það er full ástæða til þess að við förum að huga að þessu máli, hvort ekki sé ástæða til að stíga stærri skref en stigin hafa verið í átt til þess að afnema verðtrygginguna. Ég ítreka fyrirspurn mína til hæstv. viðskiptaráðherra um hvernig hún sjái fyrir sér að við stígum það skref að skoða kosti og galla þess að afnema verðtrygginguna og hvernig hún muni standa að því að uppfylla þau loforð sem gefin voru á landsfundi hennar um að verðtrygging verði að fullu afnumin.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og síðari umr.