131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[16:23]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum. Við erum ekki að ræða um stimpilgjöld, við erum ekki að ræða samkeppni á matvörumarkaði, við erum ekki að ræða um hækkun á húsnæði eða skattkerfið almennt, við erum að ræða um verðtryggingu á fjárskuldbindingum og ég ætla að halda mig við það.

Í greinargerð með frumvarpinu stendur að verðtryggingin sé oft tortryggileg í augum erlendra fjárfesta. Hún er greinilega ekki bara tortryggileg í augum þeirra heldur líka margra innlendra aðila líka, sem alltaf hafa haft horn í síðu verðtryggingarinnar af ýmsum ástæðum.

Verðtryggingin tekur áhættuna bæði af lánveitanda og skuldara. Í greinargerðinni stendur að hún taki eingöngu áhættu af lánveitanda en það er ekki svo vegna þess að laun hafa yfirleitt hækkað eins og verðlag, sem betur fer. Ef það gerðist ekki þá yrði ýmislegt fleira en bara greiðslur af lánum þungbært fyrir fjölskylduna, öll framfærslan yrði líka dýrari því að hún sem mundi hækka umfram laun. Við vonum að þeir tímar komi ekki. Þeir hafa ekki komið síðan núverandi ríkisstjórn tók við völdum. (Gripið fram í: Nei, aðeins fyrr.) Reyndar er það svo. Frá því að samstarf framsóknarmanna og sjálfstæðismanna tók við hafa launin alltaf hækkað meira en verðlag sem betur fer.

Hverjir eiga flestar verðtryggðar kröfur? Það eru aðallega lífeyrissjóðir landsmanna. Og hverjir skulda? Það er almenningur í landinu. Það er dálítið merkilegt, ef við tökum dæmi um íbúð sem kostaði 15 millj. kr. fyrir ári síðan þá kostar hún 17,5 milljónir í dag. Ef viðkomandi aðili hefði skuldað 10 millj. kr. fyrir ári síðan, sem er ósköp venjuleg skuld, 66% af eigninni en hún er að meðaltali 60%, þá skuldaði hann tæplega 10,5 milljónir í dag. Eignin hefur sem sagt hækkað um tvær milljónir umfram skuldirnar.

Allt tal um að verðtryggingin sé þungbær fyrir skuldara er því út í hött, alla vega þegar meginhluti verðbólgunnar er vegna hækkunar á húsnæði. Ég vona að ég þurfi ekki að heyra það enn einu sinni, sem ég hef fengið að heyra undanfarin ár, að hækkun lána sé svo og svo mikil þegar hún er aðallega vegna hækkunar á húsnæði, sem stendur að baki lánunum.

Hér hefur komið fram að menn geti ekki tekið lán í erlendri mynt. Ég veit ekki betur en að Íslandsbanki bjóði slík lán. Ég man reyndar ekki hverjir vextirnir eru en þeir eru mjög lágir og þeir eru óverðtryggðir. Þeir eru bara í þeirri mynt. En auðvitað taka menn gengisáhættu og ég veit ekki betur en að menn geti tekið óverðtryggð lán ef þeir kæra sig um. Það er ekkert sem bannar það. Það er ekkert sem bannar að veita og taka óverðtryggð lán, það er valkvætt. Menn geta tekið lán óverðtryggt, menn geta tekið gengistryggt lán og menn geta tekið verðtryggt lán.

Varðandi það að hagnaður bankanna sé vegna vaxtamunar þá er það alls ekki svo. Hagnaður bankanna, þessi gífurlegi hagnaður, er vegna sölu á hlutabréfum að mestum hluta. Vaxtamunurinn hefur varið hratt lækkandi.

Séu ársskýrslur Seðlabankans skoðaðar sést, eins og kom fram í máli flutningsmanns, að verðtryggð lán hafa löngum, yfirleitt alltaf, verið ódýrari fyrir skuldara en óverðtryggð lán. Raunvextir af verðtryggðum lánum eru lægri enda er það eðlilegt þar sem verðtryggingin tekur áhættu, bæði af lánveitanda og lántakanda. Þess vegna er þessi tillaga mjög undarleg. Hún er mjög undarleg í ljósi þess, sérstaklega af því að menn eru ekki að tala um hvort eigi að afnema verðtrygginguna heldur að það eigi að afnema hana, tillagan gengur út á það. Greinargerðinni lýkur með þeim orðum, með leyfi herra forseta:

„Einnig er lögð áhersla á að skoðað verði að heimila að lántakendur hafi val um lánskjör með og án verðtryggingar.“ Þetta er til í dag en þeir vilja taka verðtrygginguna af.

Það getur vel verið að einhverjum líki ekki að lántakendur komist í ódýr lán. Það getur vel verið að einhverjum sé illa við skuldara og vilji að þeir borgi hærri vexti. En ég er ekki í þeim hópi. Ég vil halda verðtryggingunni áfram á meðan hún skaðar engan og hún gerir það ekki. Hún tekur áhættu af lífeyrissjóðunum þannig að ég sé ekki af hverju menn ættu að afnema hana, sérstaklega af því að hún skiptir sífellt minna máli, þegar verðbólgan er jafnlítil og hún er í dag.

Það væri spurning, herra forseti, hvort ekki ætti að umorða þessa tillögu og segja: Tillaga til þingsályktunar um hvort afnema eigi verðtryggingu á fjárskuldbindingar. Þá getur vel verið að ég vildi skoða það, kosti og galla. Ég er nærri viss um að kostirnir yrðu umtalsvert meiri við verðtryggingu, sérstaklega fyrir skuldara sem sumir þykjast bera umhyggju fyrir.