131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[16:33]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal ágæt svör. Þó er ég ekki fullkomlega sáttur þar sem hann talar um Ísland sem einangrað fyrirbæri í efnahagslífinu. Reyndar sagði hann í lokin, herra forseti, að þetta væri nú allt saman að breytast og finnst mér sem hv. þingmaður sé kominn á þá braut að vilja skoða þessi mál til hlítar og vona ég að félagar hans úr Sjálfstæðisflokknum taki hann til fyrirmyndar í þeim efnum því að greinilega er um aukna fjármagnsbyrði íslenskra heimila að ræða miðað við það sem gerist í nágrannalöndunum.

Við erum sammála í því, ég og hv. þingmaður, að efnahagslífið er að breytast. Fjölbreyttari iðnaður er staðreynd á Íslandi í dag miðað við það sem áður þekktist þar sem sjávarútvegur var þorrinn af útflutningstekjum okkar. Í dag er möguleiki á því að ná fram stöðugleika sökum þessa.

Í Noregi aftur á móti, úr því það var umræðuefni hér áðan, hefur stöðugleiki ríkt að undanförnu. Sökum mikilla náttúruauðlinda og fjölbreytileika í hagkerfi Noregs geta menn tekið lán án verðtryggingar á lágum vöxtum, þó breytilegum, án þess að tefla sjálfum sér í voða.

Því leyfi ég mér aftur að spyrja hv. þingmann: Er ekki möguleiki, herra forseti, að það sé íslenskum fjölskyldum til farnaðar í ljósi þess að stöðugleiki sé að komast á í íslensku efnahagslífi, að taka ógengistryggð lán á breytilegum vöxtum með þá trú sem þó stjórnarliðar vilja hafa á efnahagslífinu í farteskinu?