131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[16:39]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef löngum verið sammála því að óeðlilegt sé að hafa breytilega vexti og verðtryggingu. En þetta eru ekki bankarnir. Það eru ekki bankarnir sem eru að græða á þessu, það eru lífeyrissjóðirnir sem eiga stærstan hluta af verðtryggðum eignum þjóðarinnar. Það getur vel verið að menn vilji að þeir græði ekki nógu mikið, að einhver slík hugsun sé að baki. Bankarnir taka vaxtamun og vaxtamunur á Íslandi hefur farið hratt lækkandi, mjög hratt lækkandi á síðustu árum í kjölfar samkeppninnar. Það er mjög jákvætt. Vaxtamunurinn er það sem bankarnir taka af lánum umfram það sem þeir greiða sparifjáreigendum.

Það er nú nokkuð langt gengið hjá hv. þingmanni að fara að tala um einstaka mánuði, að verðtryggingin hafi verið dýrari einstaka mánuði. Við erum að tala um langtímaáhrif, langtímalán. Það er bara fáránlegt og útúrsnúningur að fara að tala um að þetta sé dýrara einstaka mánuði og ótrúlegt að hv. þingmaður skuli leyfa sér það.

Ef tillaga til þingsályktunar héti um hvort afnema eigi verðtryggingu og að nefndin ætti að leggja mat á það hvort eigi að afnema verðtryggingu eða ekki og kosti þess og galla, þá gæti vel verið að ég væri til í að skoða það, en ég vil líka fyrst fá mat á því hvað slík nefnd mundi kosta og hvað slíkt starf mundi kosta, því það er alltaf gott að fá meiri upplýsingar og slær kannski á þá tortryggni innlendra aðila á verðtrygginguna sem hefur nýst skuldurum mjög vel.