131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[16:59]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að lýsa yfir sérstakri ánægju minni með þessa ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem mælti hér af talsverðu viti og enn þá meiri reynslu því að þess er skemmst að minnast að hv. þingmaður, þáverandi formaður Samtaka atvinnulífsins, varð þess valdandi með öðru góðu fólki, einkanlega frá verkalýðshreyfingunni og með atbeina þáverandi ríkisstjórnar Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks, að þjóðarsátt komst á og lagður var grunnur að því framfaraskeiði sem hefur mestan part staðið síðan. Eitt meginatriði þeirrar þjóðarsáttar var einmitt að fá fólk til að trúa því að sú verðbólguóáran sem stóð allan níunda áratuginn væri ekki eitthvert náttúrulögmál sem Íslendingar þyrftu að búa við um aldur og ævi. Það tókst að verulegu leyti. En eftir sem áður, eins og hv. þingmaður rakti skilmerkilega, eru angar þessarar fyrrum efnahagsstjórnar enn til staðar í efnahagskerfi okkar, þar á meðal verðtryggingin. Eins og hann rakti og benti réttilega á er hún eingöngu til staðar í tilteknum þáttum efnahagskerfis okkar og þá einkanlega hvað varðar verðtryggingu á lánsskuldbindingar einstaklinga. Þess vegna fagna ég því alveg sérstaklega að þessi sérfræðingur Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum skuli tala jafnafdráttarlaust og hann hefur gert hér og styðja þessa tillögu. Það er einfaldlega þannig, herra forseti, að mér sýnist af einfaldri talningu og án allrar verðtryggingar að um það bil 70% þingheims styðji tillöguna og séu áfram um það að við gerum efnahagskerfi okkar Íslendinga sambærilegt því sem gerist og gengur í nágrannalöndum okkar, en við tölum ekki bara þannig á hátíðisdögum.