131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[17:11]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta með hvernig við eigum að mæla verðbólguna og að hún sé ofmæld og afvegaleiði hagstjórnina — við höfum farið yfir þetta í efnahags- og viðskiptanefnd, m.a. með forustumönnum á Hagstofunni, um hvort eðlilegt sé að húsnæðisliðurinn sé þarna inni eins og hv. þingmaður nefndi. Forustumenn Hagstofunnar fundu því allt til foráttu að taka húsnæðisliðinn út þannig að mér finnst að hv. þingmaður eigi að eiga tal við hagstofustjóra og fólk hans í því sambandi. Þeir fundu málinu allt til foráttu.

Ég fagna því sem hv. þingmaður sagði um að það sé óeðlilegt að saman fari breytilegir vextir og verðtrygging. Ég er honum hjartanlega sammála um að hér er um oftryggingu að ræða. Hreinlega er verið að svína á skuldurum með þessu móti og það hefur komið fram hjá fleiri þingmönnum í dag að þeir telja óeðlilegt að þetta geti farið saman.

Það er samt svo að Seðlabankinn hefur gefið út álit sitt í þessu efni, telur þetta eðlilegt og að engu þurfi að breyta.

Ég spyr hv. þingmann líka um það sem ég tel afar óeðlilegt og menn þurfa einhvern veginn að ná saman um, þessa háu dráttarvexti í verðbólgu sem er þó ekki meiri en við höfum haft að undanförnu. Við búum við 20% dráttarvexti. Þeir sem eru skuldugir og geta ekki staðið við skuldbindingar sínar þurfa að greiða 20% dráttarvexti og það er Seðlabankinn sem ákveður þá. Ég hefði haft mjög gaman af því að heyra álit hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar hvað það varðar. Ég held að við þurfum að sammælast um leið til að lækka dráttarvextina.

Ég held að það sé alveg grundvöllur fyrir því, virðulegi forseti, að þessi tillaga verði samþykkt. Ég held að þingmenn allra flokka og efnahags- og viðskiptanefnd eigi að leggjast yfir það hvernig við viljum hafa tillöguna og hvaða leiðbeiningar þingið vill gera í þeirri endurskoðun sem ég held að hér sé meiri hluti fyrir að fari fram (Forseti hringir.) að því er varðar almennar verðtryggingar á fjárskuldbindingum.