131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[17:23]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Vegna ræðu hv. þingmanns vil ég taka fram þannig að ekki fari á milli mála að meiningar mínar um að þörf væri á því og hollt væri að reyna að komast út úr verðtryggingunum eru ekki vegna hagsmuna skuldara heldur vegna þess að ég er sannfærður um að verðtryggingin gefur þjóðfélaginu falskt öryggi. Ef við hefðum hana í miklu minna mæli en við höfum mundu menn haga sér öðruvísi og af meiri ábyrgð.

Við tryggjum hagsmuni skuldaranna best með því, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur margsinnis tekið fram, ef við gætum minnkað þörfina fyrir að eyða peningum. Við erum þjóðin sem safnar dótinu. Við erum hin mikla dótaþjóð, eins og einhver sagði, og sá vinnur sem á mest dót þegar hann deyr. Þetta er viðhorfið sem víða er, því miður. Ef við ættum minni bíla og færri, byggjum í minni húsum og ættum minna dót liði okkur miklu betur. Það er hin mikla eyðsla samfélagsins, þessi ofboðslega eyðsla sem er að sliga samfélagið þannig að öll barátta fyrir því að menn eyði minni peningum er sú barátta sem mun hjálpa skuldurunum.

Við þurfum mjög á því að halda í þessu mjög svo timbraða samfélagi. Skuldararnir hafa sömu hagsmuni og allir aðrir. Allt þjóðfélagið þarf að geta lifað í heilbrigðu efnahagslífi. Ég er sannfærður um að ef við afnemum verðtrygginguna haga bankarnir sér öðruvísi, peningastofnanir og einstaklingarnir einmitt vegna þess að þá eru vextirnir miklu hvassari og bíta miklu meira.