131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[17:27]

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að hlutirnir geta orkað tvímælis. Auðvitað eru þau rök sem hafa verið lögð fyrir og hafa verið lengi að við mættum ekki fara út úr verðtryggingunni þrátt fyrir allar pólitískar yfirlýsingar um að við ætluðum að gera það um leið og verðbólgan væri farin, auðvitað eru það rök að menn vilja ekki taka áhættuna. Sérstaklega eru það rök þegar menn segja að það mundu allir verða svo hræddir. Það ræður úrslitum. Menn mundu ekki þora að treysta íslenska gjaldmiðlinum.

Þess vegna, herra forseti, er svo brýnt fyrir okkur að allir aðilar í samfélaginu, jafnt atvinnurekendur, sem launþegar, sem skuldarar og sem fjármagnseigendur hafi sams konar hagsmuni og muni standa vörð um gjaldmiðilinn eins og gert er í öðrum löndum, ekki síst hið opinbera. Sveitarfélög og ríki hafa þar ábyrgð að standa vörð um gjaldmiðilinn. Það finnst mér vega þyngst þó ég viti alveg að það er voða gott líf að lifa í því skjóli sem verðtryggingin er. Þá þarf ég ekki að taka áhættu, hugsa menn. En það verða allir að taka áhættu í þessu lífi og ég er sannfærður um að við vinnum íslenskri hagstjórn mest gagn með því að stefna ótrauð í að hér verði tiltölulega lítil verðtrygging í gangi, eins og ég hef sagt áður, helst að bara ríkisskuldabréfin hefðu þann forgang að vera þannig.