131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Nýtt tækifæri til náms.

144. mál
[17:52]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að vissulega þarf að koma til móts við þetta fólk. Það er nauðsynlegt vegna þess að það er hagkvæmt fyrir alla, ekki bara þessa einstaklinga heldur bara þjóðfélagið í heild, að fólk skili sér í gegnum skólakerfið. En við skulum ekki gleyma því samt að auðvitað fá allir tækifæri til náms. Fólk verður líka að sækja það svolítið sjálft.

Ég tel einnig mikilvægt í þessu tilliti að það skili sér í umræðunni hve mörg úrræði eru til staðar. Það þarf líka að kynna þau svolítið betur. Það er erfitt að ná til akkúrat þessa hóps vegna þess að slíkar kynningar fara fram í skólunum. Það þyrfti frekar að fara út á vinnustaðina, út í þjóðfélagið og kynna þessar leiðir.