131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Námskrá grunnskóla.

472. mál
[12:12]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Það er rétt að það komi strax fram að Samband íslenskra sveitarfélaga kom að sjálfsögðu að verkefninu sem lýtur að því að stytta námstíma til stúdentsprófs og fulltrúi þeirra sagði skýrt og skorinort að hægt væri að rúma þetta innan grunnskólans án þess að það hefði kostnað í för með sér, því grunnskólinn hefur einfaldlega lengst það mikið. Svigrúm hefur skapast til að þétta námsefnið og taka við auknu námsefni í grunnskólann.

Einnig er rétt að undirstrika og taka undir með hv. þingmanni og fyrirspyrjanda að auðvitað eigum við að stefna hærra. Niðurstöður úr PISA-könnuninni hafa verið ágætar, þokkalegar en við eigum að sjálfsögðu að stefna hærra og það markmið setjum við okkur við mótun menntastefnu til framtíðar, að sjálfsögðu.

Hins vegar er athyglisvert þetta jákvæða og góða tal m.a. hv. fyrirspyrjanda um valfrelsið. Ég fagna sérstaklega þeirri víðsýnu skoðun hv. þingmanns og vil hvetja hann sérstaklega til dáða að hann reyni að breiða út þetta fagnaðarerindi og boði m.a. til fundar meðal fulltrúa hans í R-listanum þar sem það er greinilegur skoðanamunur meðal talsmanna Samfylkingarinnar í menntamálum annars vegar á landsvísu og hins vegar á sveitarstjórnarstigi. Það er kannski það athyglisverðasta sem kom út úr fyrirspurninni í dag að það er greinilegur skoðanamunur og ég hvet hv. þingmann til dáða að breiða út fagnaðarerindið og opna augu ráðamanna hér í borg að reyna að ýta undir valfrelsi í grunnskólamálum á svæðinu.