131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Símenntunarmiðstöðvar.

573. mál
[12:14]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ein besta aðgerð í þágu landsbyggðarinnar sem farið hefur verið í á síðustu árum er uppbygging símenntunarmiðstöðva á nokkrum stöðum á landinu. Tillaga um framlög til þessarar starfsemi kom frá fjárlaganefnd Alþingis en ekki að frumkvæði menntamálaráðuneytis og þannig hefur það verið síðan. Starfsemi símenntunarmiðstöðva hefur fyrir löngu sannað gildi sitt. Fjöldi þess fólks sem stundar þar nám fer vaxandi, hvort sem um er að ræða námskeið, framhaldsnám eða nám á háskólastigi.

Það má fullyrða að stærsti hluti þeirra sem stundað hefur nám hjá símenntunarmiðstöðvum hefði ekki átt þess kost að stunda nám ef þær væru ekki til staðar. Fræðslunet Suðurlands er ein af þessum stöðvum. Á vegum þess stunduðu 313 einstaklingar nám á haustönn 2004, þar af 86 háskólanám. 99 nemendur við háskóla og framhaldsskóla tóku próf á vegum fræðslunetsins. Fræðslunetið á Suðurlandi hefur nú verið rekið með halla undanfarin tvö ár og ef ekki verða breytingar á verður að leggja niður ákveðna þætti starfseminnar, þar með talið háskólanámið.

Á Suðurnesjum hefur þróunin verið sú að 2.639 einstaklingar sóttu námskeið eða nám fyrir utan fjarkennslu á háskólastigi á árinu 2004 á móti 1.303 árið 2000. 86 stunduðu háskólanám á vor- og haustönn 2001 en 135 á vor- og haustönn 2004. Þessi gífurlega aukning sýnir glöggt þörfina sem er fyrir þessa starfsemi fyrir utan þá staðreynd að á Suðurnesjum er eitt lægsta menntunarstig á landinu. Mikilvægi þess að styrkja símenntunarmiðstöðina þar er augljóst.

Hallinn á rekstri miðstöðvarinnar á Suðurnesjum á árinu 2003 var 4 millj. og það getur ekki gengið. Verulegt misræmi er í framlögum til símenntunarmiðstöðva, þannig fá miðstöðvar á Vestfjörðum og Austfjörðum u.þ.b. helmingi hærra framlag frá ríkinu þótt starfsemin þar sé á engan hátt frábrugðin starfseminni á Suðurlandi og Reykjanesi. Það er ekkert samræmi í framlögum til símenntunarmiðstöðva og þess mikilvæga hlutverks sem þær gegna.

Eins og fram kemur í fyrirspurn sem hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir lagði fram fyrr á þessu þingi var stofnuð nefnd í fyrra um fjarkennslumál sem er auðvitað stór hluti af starfsemi símenntunarmiðstöðva. Ekki veit ég hvað kom út úr vinnu þeirrar nefndar því að fyrirspurn þingmannsins hefur ekki enn verið svarað.

Það er ljóst að eigi starfsemi þessara mikilvægu miðstöðva menntunar að lifa og halda áfram að þróast verður að ganga frá samningi um framlög til þeirra, ekki út frá því hvar þær eru staðsettar á landinu heldur í takt við þá starfsemi sem þær reka. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Hefur verið gengið frá samningum um starfsemi símenntunarmiðstöðva? Ef svo er, hvað felst í þeim samningum? Ef ekki, hvenær má vænta þess að frá þeim verði gengið?