131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Símenntunarmiðstöðvar.

573. mál
[12:17]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi og þingmaður Margrét Frímannsdóttir spyr mig spurninganna:

„Hefur verið gengið frá samningum um starfsemi símenntunarmiðstöðva? Ef svo er, hvað felst í þeim samningum? Ef ekki, hvenær má vænta þess að frá þeim verði gengið?“

Það er rétt að fara yfir það að fræðslu- og símenntunarmiðstöðvarnar á landsbyggðinni eru níu talsins: Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Farskóli Norðurlands vestra – miðstöð um símenntun, Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, Fræðslumiðstöð Þingeyinga, Fræðslunet Austurlands, Fræðslunet Suðurlands, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum og Fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja.

Miðstöðvarnar eru sjálfseignarstofnanir eins og hefur komið fram og voru stofnaðar á árabilinu 1998–2003. Stofnaðilar miðstöðvanna eru sveitarfélög, fræðsluaðilar, stéttarfélög, ýmis félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki. Við hverja þeirra starfa 2–3 starfsmenn sem sinna verkefnum samkvæmt skipulagsskrá, þ.e. að veita ráðgjöf, upplýsingar og miðla menntun í samvinnu við félagasamtök, fræðsluaðila og atvinnulíf.

Meginmarkmið þeirra allra er að sinna sí- og endurmenntun fyrir einstaklinga og atvinnulíf hver á sínu svæði. Það má alveg taka undir með hv. fyrirspyrjanda að starfsemi þeirra hefur skipt miklu fyrir það að styðja og efla byggð og búsetu um allt land. Þá er efling náms á framhalds- og háskólastigi mikilvægur tilgangur með miðstöðvunum og er sá þáttur ört vaxandi.

Í janúar ár hvert gerir menntamálaráðuneytið skriflegan samning við hverja hinna níu símenntunarmiðstöðva sem starfa á landsbyggðinni. Á fjárlögum 2005 fær hver símenntunarmiðstöð 9,5 millj. kr. Við undirritun samnings greiðir ráðuneytið viðkomandi símenntunarmiðstöð fyrri helming framlagsins en seinni helminginn 1. ágúst ár hvert. Fyrri hluti framlagsins hefur verið greiddur öllum stöðvunum. Gildistími þessara samninga er síðan sjálft almanaksárið.

Miðað er við að af framlaginu greiðist fyrir starfsmannahald u.þ.b. 5 millj., fyrir aðstöðu u.þ.b. 2,5 millj. og til sérverkefna um 2 millj. Þá er rétt að draga líka fram að ráðuneytið styrkir símenntunarmiðstöðvarnar vegna reksturs internetstenginga þeirra og út af hinu svokallaða FS-neti upp á samtals 11,2 millj. á ári hverju. Seint verður undirstrikað mikilvægi þessara símenntunarmiðstöðva og það er líka rétt að draga fram að á síðasta ári skipaði ég starfshóp með fulltrúum símenntunarmiðstöðvanna til að fara yfir hlutverk þeirra til framtíðar. Eins og kom fram hjá mér áðan hafa símenntunarmiðstöðvarnar verið að koma til skjalanna frá árinu 1998 og alveg til ársins 2003 og þannig er þetta enn þá í þróun að mínu mati. Við eigum að halda áfram að reyna að hlúa að þeim til framtíðar en ég bíð eftir niðurstöðum starfshópsins og geri mér vonir um að þá komum við til með að sjá endanlega mótaða stefnu varðandi hlutverk símenntunarmiðstöðva til framtíðar.