131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Símenntunarmiðstöðvar.

573. mál
[12:22]

Hjálmar Árnason (F):

Herra forseti. Ég held að það sé fulldjúpt í árinni tekið að halda því fram að algjört svartnætti ríki um símenntunarmiðstöðvar í landinu. Sem betur fer hefur orðið algjör sprenging á því sviði og má segja að það skólastig sé ekki síður mikilvægt orðið en önnur skólastig, allt frá leikskóla- og upp á háskólastig og allt þar á milli. Enginn getur sagt að viðkomandi hafi lokið námi, svo fjölbreytilegt sem samfélagið er orðið. Þessi sprenging hefur auðvitað orðið vegna þess að aðstaða er til staðar sem varð upphaflega fyrir frumkvæði fjárlaganefndar þingsins. Svo yfirtók menntamálaráðuneytið hugmyndina.

Ekki stunduðu svo margir nám símenntunarmiðstöðva nema af því að þar eru skilyrði fyrir hendi, þótt þau mættu sannarlega vera betri. Ég treysti því sem hæstv. ráðherra sagði, að sú nefnd sem var skipuð og vilji ráðuneytisins verði einmitt til þess að styrkja stöðvarnar enn frekar því að þetta er stóriðja okkar og að henni eigum við að stuðla.