131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Símenntunarmiðstöðvar.

573. mál
[12:26]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Mér finnst bjart yfir símenntunarmálum þjóðarinnar. Það er fyrst og fremst til komið vegna símenntunarmiðstöðvanna. Við eigum að vera svolítið bjartari þegar við ræðum tilvist og starfsemi símenntunarmiðstöðvanna sem hafa staðið sig feikilega vel um land allt.

Það sem hefur gerst og er afar jákvætt að mínu mati er að símenntunarmiðstöðvarnar hafa sprottið úr ákveðnum jarðvegi. Þær eru tiltölulega nýjar af nálinni og það sem hefur gerst er að þær hafa fetað sig áfram hver á sínu sviði. Vissulega sjá þær allar um símenntun og endurmenntun, tengjast háskólamenntuninni, en hafa hver á sínu svæði mótað sér sérstöðu og reynt að átta sig á hvernig hægt er að höfða til þeirra sem eru á hverju svæði fyrir sig í þessum níu símenntunarmiðstöðvum.

Nú er komið að því, og það er meðal annars hlutverk nefndarinnar, að fá ákveðið samræmi í starfsemi og hlutverk símenntunarmiðstöðvanna. Ég ítreka að ég geri mér vonir um að sú nefnd komi til með að skila tillögum til mín innan tíðar. Þessi hópur var skipaður með það í huga að reyna að treysta undirstöðu símenntunarmiðstöðva, undirstrika mikilvægi þeirra. Ég held að við eigum frekar að bíða og sjá en að vera með eitthvert svartnættistal (Gripið fram í.) í þingstól.