131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði.

488. mál
[12:31]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur lagt fyrir mig fyrirspurn í fjórum liðum um miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði. Fyrsta og önnur spurning hv. þingmanns eru nátengdar þannig að það er eðlilegt að þeim sé svarað hér sameiginlega.

Fyrst vil ég árétta að fyrirspurnin vísar til skýrslu nefndar sem var skipuð í febrúar 2004 á grundvelli þingsályktunar Alþingis. Nefndinni var falið að fjalla um hvernig sporna mætti við því að fólk væri látið gjalda aldurs á vinnustað, hvort heldur er með uppsögnum eða mismunun í starfi.

Þingflokkar og helstu samtök á vinnumarkaði áttu fulltrúa í nefndinni. Hún vann mjög vel að verkefni sínu og skilaði skýrslu til félagsmálaráðherra seinni hluta nóvember sl. Nefndin hafði frumkvæði að því að unnin var könnun á viðhorfum til stöðu miðaldra fólks á vinnumarkaði. Könnunin var unnin í samvinnu við IMG Gallup og kostuð af félagsmálaráðuneytinu. Þá voru spurningar í viðhorfskönnun Samtaka atvinnulífsins samdar í samráði við nefndina.

Í maí 2004 var haldin ráðstefna um málefni miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði. Að henni stóðu, auk félagsmálaráðuneytisins, Vinnumálastofnun, Áhugahópur um atvinnumál miðaldra fólks, Samtök atvinnulífsins, BSRB, VR, Félag bókagerðarmanna, Efling – stéttarfélag, Samband íslenskra bankamanna, Rafiðnaðarsambandið og Landssamtök lífeyrissjóða ásamt framangreindri nefnd.

Í skýrslu nefndarinnar koma fram m.a. mismunandi sjónarmið varðandi það hvort þörf sé á aðgerðum og þá hvers konar aðgerðum. Hins vegar varð hún sammála um, eins og fram kom í máli hv. þingmanns, að leggja til að stjórnvöld hefji nú þegar sérstakt fimm ára verkefni til að styrkja stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði. Tryggt verði að málefnum þessa hóps verði sinnt sérstaklega á komandi árum ásamt því að vekja athygli á málefninu. Verkefninu verði ætlað að skapa jákvæða umræðu um miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði, bæta ímynd þess og stuðla að viðhorfsbreytingu meðal aðila vinnumarkaðarins og í þjóðfélaginu í heild gagnvart þessum hópi. Verkefnið verði og unnið í nánu samstarfi við þá aðila sem helst tengjast málefninu.

Ég hef þegar brugðist við þessari tillögu nefndarinnar. Í janúar sl. sendi ég bréf með ósk um tilnefningu í verkefnisstjórn til Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins, fjármálaráðuneytis, Alþýðusambandsins og Vinnumálastofnunar. Einnig var þess óskað að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna og Kennarasamband Íslands tilnefndu sameiginlega einn fulltrúa. Gert er ráð fyrir að félagsmálaráðherra skipi einn fulltrúa án tilnefningar og verði hann jafnframt formaður verkefnisstjórnar.

Í bréfinu er þess óskað að tilnefningar berist fyrir 20. febrúar sl. en ekki hafa enn borist tilnefningar frá öllum aðilum. Verkefnisstjórnin verður skipuð þegar þær hafa borist. Ég geri ráð fyrir að verkefnisstjórnin hafi hliðsjón af framangreindri skýrslu þegar hún útfærir hlutverk sitt og leggur drög að næstu skrefum í þessu máli en mér finnst ekki ástæða til að setja henni skorður með sérstöku erindisbréfi á þessu stigi, hvað sem síðar verður.

Hv. þingmaður spyr í þriðja lagi um innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins um almennan ramma gegn mismunun í starfi og á vinnumarkaði. Þessari spurningu hefur, hæstv. forseti, áður verið svarað hér á Alþingi. Stjórnvöld hafa lýst yfir vilja sínum til að endurspegla efni tilskipunarinnar hér á landi. Engin ákvörðun hefur verið tekin um það með hvaða hætti það verður nákvæmlega gert, en það verður gert. Rætt hefur verið um að þetta verði gert eftir því sem tækifæri gefast við endurskoðun á gildandi lögum, þetta verður eitt af því sem væntanlega verður til umfjöllunar í verkefnisstjórninni. Ég er opinn fyrir öllum góðum tillögum um þetta efni en eins og fram kom í máli hv. þingmanns eru mjög skiptar skoðanir um það í samfélaginu.

Fjórða spurning hv. þingmanns snertir fjármagn til verkefnisins. Á þessu stigi er óljóst hvert umfang þess verði. Eins og gefur að skilja er ekki gert ráð fyrir fjármagni til verkefnisins á gildandi fjárlögum fyrir árið 2005. Hins vegar eru ýmsir kostir til að afla fjármagns til einstakra viðfangsefna en það fer eftir eðli þeirra og markmiði hvar borið verður niður. Hér gæti starfsmenntasjóður félagsmálaráðuneytisins orðið að liði sem og starfsmenntasjóðir atvinnulífsins og ég geri einnig fastlega ráð fyrir að fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök sýni þessu mikilvæga viðfangsefni áhuga og séu reiðubúin að leggja því lið eftir efnum og ástæðum.