131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði.

488. mál
[12:40]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra svaraði ekki fyrirspurn minni um það hvort hann ætlaði að beita sér fyrir rammalöggjöf gegn mismunun í starfi og á vinnumarkaði vegna aldurs eins og m.a. fulltrúar ASÍ, BSRB, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar lögðu til í þessari nefnd. Um það þríklofnaði nefndin. Þess vegna er nauðsynlegt að fá fram afstöðu ráðherra til þessa, ekki einungis hvort hann ætli að innleiða þessa tilskipun Evrópusambandsins um jafna meðhöndlun í atvinnu og starfi, heldur einnig hvort hann vilji beita sér fyrir rammalöggjöf gegn mismunun í starfi.

Tilgangurinn, eins og við settum hann fram í nefndinni, var að setja almenna rammalöggjöf sem miðar að því að koma í veg fyrir mismunun vegna aldurs og fleiri þátta með það að markmiði að tryggja jafnan rétt á vinnumarkaði. Við skilgreindum m.a. hvað ætti að vera í þessari löggjöf, hvernig aðgerðir ættu að vera um eftirfylgni, hvaða nauðsynlegar heimildir þyrfti að setja í lög til að fylgja markmiðum laganna eftir, hvernig málsmeðferð og sönnun ætti að vera fyrir komið í slíkum röðum, hvernig samráði stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og hagsmunasamtaka ætti að vera fyrir komið og að kveðið yrði í þeirri löggjöf á um skyldur atvinnurekenda til að gera nauðsynlegar og eðlilegar ráðstafanir til að tryggja að markmið laganna um jafnrétti á vinnumarkaði og í starfi náist, og einnig að kveða á um skyldur stjórnvalda eins og ég nefndi.

Það er mikilvægt að fá fram afstöðu ráðherrans til þessa. Það er líka mikilvægt að fá fram afstöðu ráðherrans til þess hvort hann muni setja aukið fjármagn í starfsmenntasjóð til að fylgja því eftir að hægt sé að gera sérstakt átak í starfsmenntun aldraðra. Það er alveg ljóst að aldraðir, miðaldra fólk, búa við mismunun á vinnumarkaði. Ég þekki margar sögur um það að ef fólk sem hefur sótt um starf er yfir fimmtugt — litið er á kennitölurnar sem sýna að fólk er yfir fimmtugt — er umsóknum þess bara fleygt til hliðar og ekki einu sinni litið á þær. Þetta er nauðsynlegt að fyrirbyggja og það gerum við með því að innleiða tilskipunina, eins og við hér nefndum, og með því að setja rammalöggjöf um efnið. Um það spyr ég hæstv. ráðherra.