131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Þjónustusamningur við Sólheima.

596. mál
[12:54]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Oft hafa einkennileg mál sprottið upp í kringum Sólheima og þá ekki síst fyrir nokkrum árum þegar Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu að verulegir fjármunir sem ætlaðir voru í þjónustu við fatlaða hefðu ekki runnið í það sem ætlað var. Er einkennilegt að heyra hæstv. félagsmálaráðherra lýsa því yfir að það sé gott starf þegar ríkissjóður veitir fjármuni í þágu fatlaðra og þá séu þeir þvert gegn ætluninni notaðir til annarra hluta.

Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra þegar við sjáum nú að verið er að reisa alls kyns byggingar og aðra slíka hluti sem ekki beinlínis snúa að þjónustu við fatlaða á Sólheimum, hvort hann sé tilbúinn til þess að láta Ríkisendurskoðun fara aftur yfir það með hvaða hætti þessir fjármunir séu nýttir því að óneitanlega brá manni nokkuð í brún að sjá fyrir nokkrum árum fjármálaráðherra beita sér fyrir fjárveitingum til Sólheima í algerri andstöðu við vilja þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra. Maður spyr auðvitað hvaða hvatir það voru sem lágu að baki þeim fjárveitingum.