131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Þjónustusamningur við Sólheima.

596. mál
[12:59]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Nýting fjármuna í fortíðinni hefur verið hér til nokkurrar umræðu og vegna hennar vil ég upplýsa að þegar ég hóf undirbúning að gerð þjónustusamnings við Sólheima kynnti ég mér vel skýrslu Ríkisendurskoðunar. Við þá yfirferð fannst mér brýnt að fá úr því skorið hvort þjónustusamningurinn frá 1996 væri enn í gildi en um það voru málsaðilar, félagsmálaráðuneytið og Sólheimar, ekki sammála. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar, (Gripið fram í.) hlustaðu nú, hv. þingmaður, frá 2002 kom einnig fram að ekki væri yfir allan vafa hafið að þjónustusamningurinn frá 1996 væri fallinn úr gildi. Niðurstöður skýrslu Ríkisendurskoðunar eru að miklu leyti reistar á því að umræddur samningur teldist enn í gildi og því lykilatriði í mínum huga að fá úr því skorið. Til að eyða réttaróvissu varðandi ofangreidd atriði óskaði ég eftir því í ágúst 2003 að ríkislögmaður skilaði mér áliti á því hvort samskipti félagsmálaráðuneytisins og Sólheima frá og með febrúar 1997 og önnur atvik málsins gæfu til kynna að þjónustusamningur hafi verið í gildi og honum hafi þurft að segja sérstaklega upp af hálfu annars samningsaðila.

Í svari ríkislögmanns kemur fram að þjónustusamningur á grundvelli 14. gr. laga nr. 59/1992 hafi ekki verið í gildi allt frá ársbyrjun 1997 þótt fjárveitingar hafi verið grundvallaðar á þeim forsendum sem lagðar voru upp í eldri samningi. Þar sem samningurinn var ekki í gildi hefði sjálfgefið álitamál um uppsögn enga raunhæfa þýðingu. Með hliðsjón af lögum um málefni fatlaðra var eðlilegt að félagsmálaráðuneytið markaði fjárveitingu til Sólheima nýjan farveg, annaðhvort með lögformlegri gerð nýs samnings eða að fjárveitingar færu með öðrum hætti og þeim hætti sem nú hefur verið ákvarðaður með þjónustusamningi.

Í núgildandi samningi liggur það skýrt fyrir til hverra hluta fjármunum ríkisins skuli varið. Eftirlit með starfseminni er í höndum svæðisráðs um málefni fatlaðra og ég tel mikilvægt að Sólheimar fái starfsfrið innan þess ramma sem starfseminni hefur verið mótaður.