131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Þrífösun rafmagns.

575. mál
[13:05]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Í febrúar árið 2002 kom út skýrsla um mat á þörf á þrífasa rafmagni á vegum iðnaðarráðuneytisins sem byggðist á starfi sérstakrar nefndar er falið var af iðnaðarráðherra að gera úttekt á þörf fyrir þriggja fasa rafmagn hér á landi og meta kostnað við nauðsynlegar endurbætur á dreifikerfi landsins í því skyni.

Nefndin óskaði m.a. eftir upplýsingum frá öllum sveitarfélögum í dreifbýli um þörf fyrir þrífösun rafmagns og hvar þörfin væri mest í viðkomandi sveitarfélagi. Í niðurstöðum nefndarinnar kemur fram að kostnaður við þrífösun raforkukerfisins miðað við brýna forgangsflokka samkvæmt röðun sveitarstjórna mundi kosta um 1.200 millj. kr. í fjárfestingum eða um 13% heildarkostnaðar við þrífösun landsins. Lausleg forgangsröðun framkvæmda samkvæmt óskum sveitarstjórna eftir kostnaði leiðir í ljós að heildarfjárhæð við þrífösun umfram þessa upphæð mundi skila nánast engum auknum ávinningi fyrir notendur miðað við fram komnar óskir þeirra.

Í niðurstöðum skýrslunnar er bent á að með því að gera átak á t.d. fimm ára tímabili við þrífösun dreifikerfis vegna þessara notenda sem kosta mundi 1.200 millj. kr. væri nánast unnt að fullnægja þörf allra notenda er brýna þörf hafa fyrir þriggja fasa rafmagn.

Á síðastliðnum þremur árum eða frá því að skýrslan kom út má áætla að unnið hafi verið fyrir um 600 millj. kr. við endurbætur dreifikerfisins og þar af er aðeins hluti þeirrar upphæðar beint vegna þrífösunar. Því má áætla að enn eigi eftir að endurbyggja dreifikerfið vegna þrífösunar fyrir um það bil 1 milljarð kr.

Rarik hefur á undanförnum mánuðum unnið að þeirri áætlun sem getið er um í fyrrgreindri skýrslu og í drögum að framkvæmdaáætlun Rariks fyrir árið 2005 er gert ráð fyrir að auka allmjög það fjármagn sem síðustu ár hefur verið varið til styrkingar og endurnýjunar dreifikerfa í dreifbýli. Í fyrirliggjandi drögum að framkvæmdaáætlun er áformað að verja allt að 650 millj. kr. til endurbóta á dreifikerfi Rariks sem er ríflega tvöföldun á því fjármagni sem varið hefur verið til þessara verkefna undanfarin ár. Framkvæmdaáætlunin tekur til brýnustu verkefna vegna afhendingargæða raforkunnar og rekstraröryggis kerfisins og einnig nær hún til einstakra verkefna við þrífösun dreifikerfisins. Reiknað er með að þessari vinnu ljúki innan skamms eða fyrir lok marsmánaðar.

Ég vil því segja, hæstv. forseti, að ég tel að það séu mjög ánægjulegar fréttir að þarna skuli eiga að verja svona miklu fjármagni til þess að bæta dreifikerfið m.a. með þrífösun. Eins og kom fram hér áður er það sem sagt um það bil tvöföldun frá því sem hefur verið síðustu ár.