131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Opinber hlutafélög.

619. mál
[13:21]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Því er til að svara varðandi fyrirspurn um opinber hlutafélög að ekki hefur á mínum vegum sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra eða stofnana sem tengjast mér verið kannað hvort setja þurfi almenn lög um svokölluð opinber hlutafélög eða ríkishlutafélög.

Í lögum um hlutafélög er að finna almennar leikreglur, m.a. ákvæði um að hluthafar séu minnst tveir og hlutafé minnst 4 millj. kr. Hins vegar hafa ýmis sérlög eða sérlagaákvæði verið sett sem snerta opinber hlutafélög og hafa reynst vel, t.d. um viðskiptabanka á sínum tíma. Hafa þau lög m.a. falið í sér undanþágu frá almennum reglum hlutafélagalaganna. Nefna má sem dæmi sérlög um hlutafélög með ríkisaðild á sviði iðnaðar. Hefur þá iðulega verið sett heimild eða jafnvel gefin fyrirmæli til handa iðnaðarráðherra til að stofna slík hlutafélög. Sem dæmi má nefna lög um kísilgúrverksmiðju, járnblendiverksmiðju, sjóefnavinnslu og steinullarverksmiðju. Einnig má nefna lög um Sementsverksmiðjuna og um stofnun Landsnets hf. á sviði raforkuflutninga. Hefur verið talin þörf á að festa í framangreind sérlög ýmis ákvæði um hin nafngreindu félög en þau hafa mörg hver verið stór í sniðum. Nefna má og að ríkið hefur gjarnan selt eignarhlut sinn í tímans rás, t.d. 100% hlut í Sementsverksmiðjunni hf.

Nefna má að nýlega hafa verið sett lög um stofnun einkahlutafélags, ekki hlutafélags, um Orkuveitu Húsavíkur.

Að því er varðar danska og norska löggjöf sem minnst var á í fyrirspurninni má segja um hana í stuttu máli að ekki hafi verið sett almenn lög um opinber hlutafélög í Danmörku og Noregi. Í dönsku lögunum um hlutafélög er þannig aðeins fjallað um skilgreiningu á ríkishlutafélagi og setningu reglna um tilkynningu eignaraðildar til félagaskrár í sérstökum tilvikum, þ.e. tilkynna félagaskránni um 2% eignarhlut í félögunum og breytingar á eignarhlut sem því nemur. Í ríkishlutafélögum skulu fréttamenn hafa aðgang að aðalfundi. Samsvarandi ákvæði er ekki að finna í dönsku lögunum um einkahlutafélög.

Í dönsku lögunum um ársreikninga er hins vegar að finna nokkur dreifð ákvæði um félögin, m.a. um efni ársreikninga, gerð hálfsársuppgjörs og sendingu þess til félagaskrár, afhendingu ársskýrslu til fréttamanna og tveggja endurskoðenda.

Í XII. kafla eru viss ákvæði um upplýsingagjöf. Þannig þarf að greina í ársskýrslu frá eignaraðild eða atkvæðisrétti upp á minnst 5%, segja frá þóknun til stjórnarmanna og gefa upplýsingar um stjórnunarstörf í öðrum hlutafélögum. Ráðherra hefur heimild til að gera undantekningar frá sérstökum reglum um félögin ef nauðsynlegt er til að tryggja jafnræði þeirra sem hafa skráð hlutabréf í kauphöll. Hér á landi eru lög um ársreikninga á valdi fjármálaráðherra.

Í Noregi gilda lög um hlutafélög og lög um einkahlutafélög almennt um ríkishlutafélög og ríkiseinkahlutafélög. Í báðum lögum er þó að finna vissar sérreglur fyrir ríkisfélögin en ekki margar. Ákvæði er um sérstaka eftirlitsstjórn en slíkt fyrirbrigði tíðkast ekki í reynd hér á landi þó heimild sé til að hafa fulltrúanefnd í íslenskum hlutafélögum.

Sérákvæði eru um það í norsku löggjöfinni að minnst 40% stjórnarmanna í stjórn félaganna skuli vera konur. Sérákvæði er um hluthafafundi. Loks eru ákvæði um að ríkisendurskoðun í Noregi endurskoði ársreikninga félaganna. Svipuð ákvæði eru í íslenskum lögum um Ríkisendurskoðun varðandi hlutafélög sem ríkissjóður á helmingshlut eða meira í og getur hún jafnframt framkvæmt rannsókn og stjórnsýsluendurskoðun hjá félögunum.

Samkvæmt framansögðu hafa ekki verið sett hér á landi almenn lög um opinber hlutafélög enda hefur ekki verið sýnt fram á að sérstök þörf sé á slíkri löggjöf. Hins vegar hafa verið sett eftir þörfum sérlög um ýmis stærri félög, m.a. stóriðjufyrirtæki eða sérákvæði í lög m.a. um hlutafélagabanka í ríkiseigu eða endurskoðun slíkra félaga. Verði færð fullnægjandi rök að nauðsyn fleiri lagaákvæða, m.a. um einstök atriði að norrænni fyrirmynd, verða þau skoðuð með opnum huga.