131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Opinber hlutafélög.

619. mál
[13:27]

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 7. þm. Reykv. s., Merði Árnasyni, fyrir að leggja fram fyrirspurn um þetta áhugaverða mál á þinginu. Ég vil hvetja hæstv. iðnaðarráðherra til að setja í gang nefndarvinnu til að skoða þennan kost vegna þess að mér finnst hann mjög áhugaverður. Ef ég tek dæmi þá er pósturinn 100% í eigu ríkisins og er hlutafélag. Mér þætti mjög gott ef þar væri ákvæði um ríkishlutafélag, um að í stjórn þess fyrirtækis, svo ég tæki bara eitt dæmi, yrðu a.m.k. 40% konur. Það þyrfti að gera það á þann veg núna því ég held að það séu næstum allt saman karlar þar.

Ég vil líka nefna að þetta er áhugaverður kostur fyrir sveitarfélög ef sveitarfélög gætu t.d. búið til hlutafélög og sett áhaldahúsrekstur sinn undir slíka starfsemi. Ég kvarta yfir því, virðulegi forseti, að þegar búið er að háeffa ríkisfyrirtæki getur Alþingi ekkert spurt út í viðkomandi félag eftir það og það er slæmt.