131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Þvingunarúrræði og dagsektir umhverfisstofnana.

556. mál
[13:44]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör og tek undir það sjónarmið sem kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, það er nauðsynlegt að þeir sem eru beittir dagsektum þurfi að greiða a.m.k. einhvern hluta þeirra þó svo að þeir láti að lokum tilleiðast og framkvæmi það sem ætlast er til í lögum. Auðvitað ættu þeir að greiða allan þáttinn í því.

Mjög merkilegur hlutur kom fram hjá hæstv. ráðherra, þ.e. að aldrei hefur innheimst ein króna af dagsektum. Það er mjög sérstakt. Þetta er erfitt fyrir heilbrigðiseftirlitin og Eldavarnaeftirlitið sem eiga að fylgja eftir reglum. Ég þekki löggjöfina er varðar heilbrigðiseftirlitið mjög vel, úrræði þess eru áminningar, dagsektir sem aldrei innheimtast og síðan að loka fyrirtækjum. Sum starfsemi sem heilbrigðiseftirlitin hafa eftirlit með er þess eðlis að það er ekki hægt að loka fyrirtækjunum. Ég vil nefna t.d. fráveitur, menn loka ekki fráveitum, og vatnsbólin. Þess vegna er nauðsynlegt að dagsektirnar verði raunverulegt úrræði.

Þetta svar og þessi umræða hér ætti að verða til þess að umhverfisráðuneytið og hæstv. umhverfisráðherra taki á í þessum málum og skerpi á þeim. Ég tel það nauðsynlegt. Þetta er jafnræðissjónarmið fyrir atvinnurekstur í landinu, bæði fyrir þá sem ætla sér og vilja framfylgja lögum og reglum með ærnum tilkostnaði og síðan eru því miður, reyndar mjög mikill minni hluti, fyrirtæki sem ætla sér það alls ekki og reyna að fara eins langt og mögulegt er. (Forseti hringir.) Því miður eru dæmi um ríkisfyrirtæki sem hafa verið staðin að þvílíkum verkum.