131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Lækkun veggjalds í Hvalfjarðargöngum.

548. mál
[13:56]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Fram kom hjá hæstv. ráðherra að það væri alrangt að gangagjaldið torveldaði atvinnusókn. Ég er sannfærður um að flestir ef ekki allir Akurnesingar eru þessum orðum algjörlega ósammála og mjög undarlegt í rauninni að heyra varaformann Sjálfstæðisflokksins halda þessu fram. Síðan eru þingmenn kjördæmisins, bæði ráðherra og varaþingmaður kjördæmisins, einmitt að tala um allt annað.

Að heyra að verið sé að vinna hörðum höndum í málinu, mér finnst sú vinna vera farin að dragast ansi mikið á langinn og vera kominn tími til að menn sjái í rauninni sóknarfæri í að auka umferð um göngin, vegna þess að þá er hægt að byggja upp atvinnu og ná fram meiri arðsemi og horfa á það með þeim hætti í staðinn fyrir að horfa endalaust á skattheimtuna af göngunum, því að ef meiri umferð er þá er meiri arðsemi af göngunum, ég tel það augljóst.