131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Lækkun veggjalds í Hvalfjarðargöngum.

548. mál
[13:58]

Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja eins og er að ekki er annað hægt en að lýsa yfir miklum vonbrigðum með það ef niðurstaðan á verða sú að ríkisvaldið komi ekki með myndarlegri hætti en þetta til móts við Spöl til að lækka veggjaldið í Hvalfjarðargöng með lækkun á stimpilgjöldum sem er eitthvert lítilræði, kannski 20–30 milljónir, ég veit það ekki, það getur ekki verið mikið meira. Og að það sé eitthvert sérstakt framlag, einhver fórn af hálfu ríkisins að fallast á að þessi lán verði greidd upp sem eru hjá ríkinu þegar ríkið hefur gert kröfu um að þarna verði látið reyna á endurfjármögnun.

Að virðisaukaskattinum hafi ekki verið lofað, það hefur verið rætt hvað eftir annað í Alþingi. Hvað stóð þá upp úr mönnum? Það stóð til að gerð yrði breyting á virðisaukaskattinum. Nú liggur ekkert fyrir hvenær það verður og það frestast örugglega eitthvað langt inn í framtíðina. Og þá á bara að bíða eftir því í staðinn fyrir að auðvitað stendur sú krafa núna á ríkissjóð að hann komi til liðs við Spöl til að lækka gjöldin í göngin núna.

Ég held því fram að ekki sé vafi á því að þetta gjald torveldar atvinnusókn. Það nýjasta sem ég get fært fram því til stuðnings er að t.d. á síðasta ári fjölgaði á Árborgarsvæðinu um yfir 500 manns, sem er álíka stórt atvinnusvæði og það sem er fyrir ofan Hvalfjörðinn, en t.d. á Akranesi fjölgaði um 60–70 manns.

Auðvitað er þungt fyrir fólk sem ætlar að stunda vinnu öðru hvorum megin þessa svæðis að þurfa að borga kannski milli 200 og 300 þúsund á ári eða hátt í 300 þúsund á ári fyrir að keyra bílinn sinn í gegnum göngin.

Mér finnst að ríkið þurfi að gera mun betur en þetta og þá kröfu að ríkið hætti að innheimta virðisaukaskattinn hljóti að eiga að gera til ríkisins hvað þetta málefni varðar.