131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Greiðslur almannatrygginga til öryrkja og aldraðra.

618. mál
[14:11]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Svar hæstv. fjármálaráðherra var illskiljanlegt. Það er því miður staðreynd að aldraðir hafa dregist aftur úr í almennri launaþróun. Það eru ekki bara við í stjórnarandstöðunni sem höldum því fram heldur einnig Landssamband eldri borgara. Skattbyrðin hefur auk þess færst í auknum mæli á þá sem hafa lægri tekjur. Þar skal enn bæta í. Núna á að lækka skattprósentuna í stað þess að hækka skattleysismörk.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur sjálfur staðfest það í svörum sínum á Alþingi að ójöfnuður hafi aukist í samfélaginu. Er ekki rétt bara að gangast við því og vera stoltur af verkum sínum? Ef þetta er stjórnarstefnan, er þá ekki eðlilegast að gangast einfaldlega við því í stað þess að þvæla hér fram og aftur? Það var mjög erfitt að skilja tölur hæstv. ráðherra, því miður.