131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Greiðslur almannatrygginga til öryrkja og aldraðra.

618. mál
[14:12]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er nú ekki nema von að hæstv. fjármálaráðherra þurfi að nota alls kyns hugtök og mikið af tölum og aðeins prósentutölur til að reyna að breiða yfir feril sinn þegar lífeyrisþegar eru annars vegar. Það vita auðvitað allir að tekin var pólitísk ákvörðun um að skilja á milli lægstu launa á Íslandi og lífeyrisgreiðslna. Þær krónutölur sem hæstv. fjármálaráðherra nefndi hér ekki eru lífeyrisgreiðslurnar sjálfar. Fyrir alla nema yngstu öryrkjana eru þær einfaldlega undir 100 þús. kr.

Það er ekki nema von að hæstv. fjármálaráðherra treysti sér ekki til að nefna þá krónutölu, heldur tali bara um prósentur. Hann veit auðvitað að það er langt því frá að vera boðlegt. Hann veit líka að fyrir ekki mörgum árum síðan héngu þessar bætur í lægstu launum í landinu. En núna, vegna þess að slitið var á milli og lífeyrisþegarnir skildir eftir á botninum, eru þessar greiðslur undir lægstu launum sem greiddar eru í landinu. Fátækt þessa hóps og misrétti miðað við aðra hópa í samfélaginu er því orðið meira en við höfum áður þekkt.