131. löggjafarþing — 90. fundur,  16. mars 2005.

Greiðslur almannatrygginga til öryrkja og aldraðra.

618. mál
[14:16]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn spurði mig ákveðinnar spurningar. Ég svaraði henni. Í spurningunni er ákveðin fullyrðing sem ég tel að sé röng og tel mig hafa hrakið. Aðrir þingmenn hafa síðan farið að tala um aðra hluti og það gerði þingmaðurinn sjálfur í upphafi því að hann fór að tala um að bæturnar hefðu ekki fylgt lægstu launum. Um það er ekki spurt í þessari fyrirspurn. Þar er heldur ekki spurt um krónutöluhækkanir eða krónutölu, heldur hvort hlutfallshækkanir bótanna hafi hækkað með sama hætti og tiltekin þróun annarra stærða. (ÖJ: Ég sýndi fram á ...) Um það er spurningin, en ég er í og með að svara öðrum þingmönnum sem hér tóku til máls.

Ég tel mig hafa sýnt fram á það, hv. þingmaður, að þessi staðhæfing þingmannsins á ekki við rök að styðjast. Ég er að vísu ekki með upplýsingar fyrir síðustu mánuði sem þingmaðurinn er með, en ég get fullyrt það að ef það er svo að bæturnar hafa hækkað minna á þessu ári eða síðasta ári en sem nemur vísitölu neysluverðs þá ber samkvæmt lagabókstafnum að bæta það upp og það verður að sjálfsögðu gert. Þá er ég að tala um hækkun bótanna annars vegar og vísitöluhækkunina hins vegar, þ.e. vísitölu neysluverðs.

Hins vegar er greinilega ágreiningur um það okkar á milli hvort hækkun bótanna eigi að vera sú sama og almennar umsamdar kauphækkanir eða launavísitalan þar sem tekið er með í reikninginn alls kyns launaskrið sem verður úti á markaðnum, sem ekki er eðlilegt að taka með inn í þetta, og sveiflast fram og til baka milli ára og engin leið er að henda reiður á fyrir fram hver getur orðið. En ég tel að við höfum staðið í einu og öllu við lagaákvæðið alveg frá 1997.