131. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2005.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

146. mál
[14:44]

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Þessi þingsályktunartillaga er þörf. Hér er hreyft brýnu máli. Það háir mjög þeim byggðarlögum þar sem ekki er framhaldsskóli hversu deyfðarlegt lífið verður á þeim slóðum. Það brýtur auðvitað líka í bága við þá gagnkvæmu löngun sem bæði foreldrar og börn hafa til að vera saman og í nánum tengslum á þeim viðkvæma aldri sem börn í framhaldsskóla eru á. Þar fyrir utan verður yfirbragð byggðar þar sem framhaldsskóli er allt annað, bjartara, yngra og ferskara. Því er varla nokkur byggðaaðgerð áhrifameiri eða árangursríkari en sú að efna til framhaldsskóla sem víðast, auðvitað að því tilskildu að vel sé að framhaldsskólanum staðið, hann sé nægilega öflugur og stór til að kennarar valdi því hlutverki sem þeim er falið í mismunandi greinum og til að framhaldsskólanemendur hafi nægilegt félagslíf til að una vel við. Þeim sækist námið vel þegar vel fer um þá, í víðum skilningi þeirra orða.

Ég man eftir því að á sínum tíma þegar við sjálfstæðismenn börðumst fyrir framhaldsskólanum á Húsavík, þá var það nokkuð hörð lota en hún vannst. Ég hygg að engum manni detti í hug í dag að rétt hefði verið að hopa frá þeirri ákvörðun að framhaldsskóli skyldi vera á Húsavík þótt ágreiningur hafi verið um það í Þingeyjarsýslum. Þar eru nú tveir framhaldsskólar, annar á Laugum og hinn á Húsavík, og báðir styrkja þeir byggðirnar mikið.

Það má auðvitað velta því fyrir sér hvort tímabært sé að efna til framhaldsskólanáms á Eyjafirði utanverðum áður en gerð ganga verður lokið milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, Héðinsfjarðarganga eða hvað við köllum þau. Ég geng út frá því sem gefnu að hafist verði handa við gangagerðina á miðju næsta ári eða um það bil, a.m.k. um sumarið 2006. Mér finnst fara vel á því að efnt verði til fyrsta bekkjar í framhaldsskóla nú á vetri komanda til að undirbúa það að framhaldsskólinn geti tekið til starfa af fullum krafti um leið og göngin opnast. Þetta hlýtur að vera það mark sem byggðirnar þar setja sér og jafnframt það mark sem við þingmenn Norðausturkjördæmis setjum okkur.

Auðvitað er mér kunnugt um að nokkrar deilur hafa verið uppi um hvar slíkur framhaldsskóli skuli vera. Ég hygg að heimamenn hljóti að leysa það mál en vil hins vegar í því sambandi benda á að fjarnám hefur gefið góða raun. Ég vil líka benda á þá góðu reynslu sem orðið hefur af framhaldsskólanum í Grundarfirði.

Við vitum að byggðirnar út með Eyjafirði standa að sumu leyti höllum fæti, sem er uggvænlegt, líka í breiðu byggðalegu samhengi vegna þess styrks sem Eyjafjarðarsvæðið hefur. Það er hitaveita á öllum þessum stöðum, innri uppbygging allra þessara kaupstaða hefur verið sterk og þar ætti því að vera auðvelt að snúa þróuninni við svo að menn fyllist á ný bjartsýni, afli og kjarki til að sækja fram í þessum byggðarlögum. Einn þátturinn í því er framhaldsskólinn.

Ég hygg að á þessu svæði, þegar Héðinsfjarðargöng eru komin, verði um 4.500 manns, eitthvað svoleiðis. Við getum búist við því að á Siglufirði og Ólafsfirði séu ríflega 3.000 manns og ef horft er til reynslunnar á Húsavík, reynslunnar á Laugum og á ýmsum öðrum stöðum, þá er það nægilegur fjöldi til þess að hefja megi rekstur framhaldsskóla með góðum árangri.

En ég vil, frú forseti, um leið og ég segi þetta leggja áherslu á að það er grundvallaratriði að vel sé að kennslunni staðið, að nemendur finni sig í skólanum, líði þar vel og að byggðarlögin standi saman um þá uppbyggingu. Ég vænti þess, frú forseti, að menntamálanefnd, þegar hún fær málið til meðferðar, muni senda það til umsagnar í kaupstöðunum þremur, Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvík. Ég vænti þess, frú forseti, að nefndinni takist að ljúka störfum í vor svo að málið komist til kasta Alþingis.