131. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2005.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

146. mál
[14:59]

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Þá þingsályktunartillögu sem hér er verið að ræða flytja þingmenn Norðausturkjördæmis, fyrir utan þá sem gegna ráðherraembætti. Því má eiginlega segja að þetta sé kjördæmamál sem er mjög eðlilegt að sé fært hingað inn, þ.e. að Alþingi álykti að fela menntamálaráðherra undirbúning að stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð. Þetta er tillaga sem þverpólitískur stuðningur er við frá þingmönnum kjördæmisins og annarra eins og þess hv. þingmanns sem talaði hér síðast.

Eiginlega má segja að þetta sé nútímaleg byggðastefna. Þetta er það sem allir ráðamenn þjóðarinnar tala um á tyllidögum, að efla menntun og gera mönnum kleift að sækja skóla ekki um of langan veg frá heimili sínu.

Eins og fram kom áðan er Akureyri náttúrlega vagga framhaldsnáms á landsbyggðinni ef svo má að orði komast, þar er verkmenntaskóli, menntaskóli og háskóli. Þess vegna held ég að þetta komi ekkert við þar vegna þess að það mikil ásókn er í þá skóla að svona skóli mundi ekkert draga úr gildi þeirra nema síður væri.

Hér er líka fjallað um að skólinn sérhæfi sig í sjávarútvegsmenntun og er kannski ekki vanþörf á, þar sem sjávarútvegsbrautin á Dalvík lagðist niður, eins og kom fram áðan. Við getum farið í skólana í höfuðborginni sem veita vélstjórnar- og stýrimannamenntun, það er hryggilegt að sjá hve nemendum fækkar þar sem leita slíkrar menntunar, en það er annar þáttur sem ég ætla ekki að ræða um nú.

Rætt er um stofnun skólans við utanverðan Eyjafjörð og mikill stuðningur er við það hjá byggðarlögunum Dalvík, Siglufirði og Ólafsfirði, og ef til vill fleirum, Hrísey er nú ekki langt frá, perla Eyjafjarðar. Eins og fram kom áðan er rétt að taka fram að við ákveðnar samgöngubætur, sem fara vonandi að fara í gang, þ.e. Héðinsfjarðargöng, verður vegalengdin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar rétt um 12 km og til Dalvíkur um 35 km. Þetta er því ekki stórt svæði. Ég hika ekki við að halda því fram, virðulegi forseti, að tvö ef ekki þrjú sveitarfélög sem ég hef nefnt hygg ég að munu taka þátt í sameiningu innan skamms um leið og menn sjá fyrir endann á að framkvæmdir hefjist við Héðinsfjarðargöng. Þá munu íbúar þessara sveitarfélaga setjast niður og sameina þau sveitarfélög sem lið í heildarsameiningu Eyjafjarðar, sem ég sé alveg fyrir mér innan einhverra ára.

Ég er einn af flutningsmönnum tillögunnar og hvet auðvitað til þess að tillagan verði send út á vegum menntamálanefndar og leitað umsagnar. Ég geri mér grein fyrir að töluverðan tíma tekur að koma svona máli í gegn, að vinna því brautargengi.

Þess vegna má spyrja, virðulegi forseti, hv. 1. flutningsmann þingsályktunartillögunnar sem tilheyrir ríkisstjórnarliðinu hvort hún sé flutt með stuðningi hæstv. menntamálaráðherra og hvort hæstv. iðnaðarráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sem báðir eru þingmenn þessa kjördæmis, þessa svæðis, muni styðja þetta, vegna þess að ekkert verður úr þessu nema fjárveitingavaldið, ríkisstjórn og aðrir styðji málið.

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi í byrjun snýst þetta um að ekki sé um allt of langan veg að fara fyrir nemendur að sækja sér menntun. Ber þess glöggt vitni glæsileg stofnun skólans á Snæfellsnesi og mikil aðsókn í hann. En af því að hv. 1. flutningsmaður nefndi áðan jöfnun námskostnaðar, þó svo það sé allt saman gott og blessað, þá dekkar sú upphæð sem fæst út á hvern nemanda sem fer frá heimabyggð sinni til að sækja sér framhaldsskólanám í skóla sem ríkið rekur á öðru svæði og borga kennurum kaup, ekki nema lítinn hluta af kostnaði foreldra við að senda unglinginn í framhaldsskóla. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál, vegna þess að ég held að 80–90% Íslendinga séu nú jafnaðarmenn að eðlisfari og telji að jafna eigi þennan kostnað. Samþykkt Alþingis fyrir jöfnun námskostnaðar er náttúrlega staðfesting á því þó svo ég hafi margoft sagt að þessi upphæð sé of lág.

Ég gæti vel ímyndað mér, virðulegi forseti, að það kosti 300–500 þús. kr. að lágmarki að senda ungling frá heimili sínu í framhaldsskóla og heimavist. Viðkomandi unglingur aflar ef til vill eitthvað af þeim peningaupphæðum sem þarf upp í þann kostnað, en ég er líka viss um og þekki það að foreldrar þurfa að leggja töluvert mikinn pening með. Til að hafa kannski 200 þús. kr. afgangs til að borga fyrir skólagöngu fjarri heimili sínu þarf að hafa upp undir 400–500 þús. kr. í launatekjur í slíkan kostnað, sem ekki er eins hár á þeim stöðum þar sem unglingar geta nánast gengið yfir götuna í framhaldsskólann.

Virðulegi forseti. Vafalaust telja menn þetta vera kjördæmapot, sem það kannski er. Þetta er kjördæmamál eins og ég sagði áðan, flutt af átta þingmönnum kjördæmisins, auk Sigurjóns Þórðarsonar úr Norðvesturkjördæmi. Ég tek skýrt fram að þetta er góð tillaga, enda erum við alþingismenn Samfylkingarinnar úr þessu kjördæmi á tillögunni.

Ég get sagt það svona rétt í lokin að á framboðsfundum og í undirbúningi fyrir síðustu alþingiskosningar, vegna þess að ég kom nýr inn í þetta kjördæmi og hv. þm. Einar Már Sigurðarson kom í rauninni nýr inn þar líka, kom okkur mjög á óvart hvað stofnun framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð var mikilvægt mál á öllum kosningafundum, á öllum fundum sem maður fór á og í vinnustaðaheimsóknum, vegna þess að þá fann maður hvað þetta brennur svakalega á fólki, þessi kostnaður m.a. sem ég nefndi og það sjónarmið líka að halda og gefa þessum hópi unglinga möguleika á að vera í heimabyggð sinni áfram og efla þar með bæjarbraginn ef svo má að orði komast.

Virðulegi forseti. Að lokum fagna ég því enn og aftur að okkur hafi tekist að flytja þessa tillögu og hún sé komin á dagskrá Alþingis og fái þinglega meðferð í menntamálanefnd og svo skulum við sjá hvort ekki takist að vinna þessu máli brautargengi.