131. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2005.

Framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð.

146. mál
[15:17]

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að bæta við það sem ég sagði í minni fyrri ræðu þar sem ég ræddi um kostnað fólks við að senda unglinginn sinn eða unglingana að heiman í framhaldsskóla.

Ýmislegt geta menn reiknað út í tölvum og fengið útkomu um hvaðeina. En auðvitað eru alltaf bestu dæmin þegar fólk getur sýnt svart á hvítu hvað þetta hafi kostað. Virðulegi forseti. Þegar þessi umræða fer fram hér er greinilega fylgst með henni víða um land og það er dálítið athyglisvert að maður skuli fá boð frá foreldri sem býr á stað þar sem framhaldsskóli er ekki, þar sem það er sagt að við það að senda fyrir þremur árum einn ungling í framhaldsskólanám, í þessu tilfelli á Laugarvatn, á þann ágæta fallega stað, hafi kostnaður verið rétt um 500 þús. kr. á hvert barn, á hvern ungling. Svo geta reiknimeistarar reiknað út, eins og ég nefndi áðan, hvað fjölskylda þurfi miklar tekjur til að eiga 500 þús. kr. eftir skattgreiðslur og annan fastan kostnað af rekstri heimilisins.

Ég vil taka það skýrt fram, virðulegi forseti, að ég hygg að jöfnunarsjóður námskostnaðar, sem ég vil kalla svo, en er stundum uppnefndur dreifbýlisstyrkur, hefur væntanlega greitt vegna skólagöngu þessa unglings um 180 þús. kr. á ári. Eftir standa því 320 þúsund. Fyrir utan það þá þekkja þeir sem hafa lent í þessu að kostnaður við að reka heimilið er ekki þannig að hann deilist niður og minnki sem svarar þeim unglingi sem fer að heiman því ýmis fastur kostnaður fellur áfram á heimilið.

Þetta vildi ég láta koma fram, virðulegi forseti. Einnig vil ég nefna að hér er fjallað um að skólinn eigi að sérhæfa sig í sjávarútvegsmenntun. Á þessu svæði, eins og hér hefur komið fram, eru náttúrlega mörg af öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og einmitt við Háskólann á Akureyri er rekin braut sem heitir auðlindabraut og hefur hún sérhæft sig m.a. í sjávarútvegsfræðum. Ég held að það sé góð stefna að hafa framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð sem leggur áherslu á sjávarútvegsfræði. Leiðin liggur svo inn á Akureyri í háskólann þar. Ég held að þetta sé góð stefna og að þetta eigi að geta unnið mjög vel saman, þ.e. framhaldsskóli við utanverðan Eyjafjörð og Háskólinn á Akureyri báðir með áherslu á sjávarútvegsfræði. Út úr því geta komið mjög þarfir námsmenn, mjög góðir námsmenn sem nýtast sjávarútvegi Íslendinga.